Sérfræðingur á neytendaréttarsviði hjá Neytendastofu segir að stofnuninni hafi borist nokkrar kvartanir vegna verðhækkunar byggingarvörufyrirtækisins Bauhaus skömmu fyrir útsölu hjá fyrirtækinu. Til stendur að kanna málið hjá nánar hjá Neytendastofu. Engin greinamunur er gerður á því í reglum hvenær vara telst á útsölu og hvenær hún telst á afslætti.
Hafa langoftast selt á fyrra verði
Matthildur Sveinsdóttir hjá Neytendastofu segir að reglulega berist kvartanir um að verð hafi hækkað skömmu áður en viðkomandi vara var sett á útsölu.
„Í slíkum tilvikum sendum við fyrirtækjum jafnan bréf og biðjum þau um að sýna fram á að varan hafi verið seld samkvæmt fyrra verði, þ.e. á verðinu sem var áður en tilboðsverðið var sett upp. Í langflestum tilfellum þá geta fyrirtækin sýnt fram á það. Við sjáum hins vegar ekki hvenær verðið var hækkað og þar sem verðlagning er frjáls þá er lítið hægt að gera við því,“ segir Matthildur.
Engar reglur um útsölur
Hún segir að engin tímamörk séu á því hversu lengi vara hafi verið í sölu á fyrra verði áður en hún er seld á tilboðsverði. Hún tiltekur að upp hafa komið tilvik þar sem fyrirtæki hafa ekki getað sýnt fram á að þau hafi selt vöru á því verði sem það var á áður en tilboðsverð var sett upp. Var BYKO sektað um 3,5 milljónir krónur af þeim sökum og Húsasmiðjan um 400 þúsund krónur.
Aðspurð segir Matthildur engan greinamun á því í lögum hvenær fyrirtæki geta sagt að vara sé á útsölu og hvenær vara er á afslætti. „Það er engin skylda á því hve afsláttur þarf að vera hár til þess að geta kallað það útsölu,“ segir Matthildur.
Sjá einnig: Hækkuðu verð fyrir útsöluna