Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja, segir nýjar mælingar á útbreiðslu makríls í lögsögu Færeyja, Íslands og Grænlands styrkja samningsstöðu Færeyja í makríldeilunni.
Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær bendir rannsókn úr 29 daga leiðangri hafrannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar til að enn sé mikið magn makríls á Íslandsmiðum. Sagði Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, að ívið minna magn hefði mælst nú en í fyrra, sem var metár. Munurinn væri þó innan skekkjumarka.
Segir Vestergaard að aukin makrílgengd í lögsögu Íslands og Færeyja sé að festast í sessi og að til þess hljóti að verða horft þegar Færeyingar ítreki kröfur sínar um kvóta til makrílveiða. Á sama hátt styrki mælingar á útbreiðslu síldar í færeyskri lögsögu málstað Færeyja.