Neytendastofa hefur bannað fyrirtækinu Drífu að nota núverandi merkingar vörum sínum en þær eru seldar undir vörumerkjunum ICEWEAR og NORWEAR. Vörurnar eru merktar með íslenskum fána en engar upprunarmerkingar eru aðrar. Þær eru hins vegar ekki framleiddar hér á landi.
Með ákvörðun sinni komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að Drífa brjóti með þessugegn lögum um eftirliti með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
Forsaga málsins er að Samtök iðnaðarins, f. h. félagsmanna sinna sem framleiða og selja íslenskar ullarvörur, sendu inn kvörtun til Neytendastofu vegna háttsemi fyrirtækisins Drífu ehf. Fyrirtækið selur ýmsar smávörur í verslunum hér á landi, m.a. lopahúfur og vettlinga. Á bakhlið merkimiða varanna er að finna strikamerki vörunnar, tilvísun á vefsíðuna NORWEAR.com ásamt mynd af íslenska fánanum. Hvorki á verðmiðanum né á textíl- og þvottamerkingu, sem saumuð er í vörurnar er að finna upplýsingar um framleiðslu varanna. Einu upplýsingarnar sem neytendum eru veittar um uppruna varanna vísa því til Íslands þrátt fyrir að fram hafi komið í gögnum málsins að vörurnar væru framleiddar erlendis og því ekki unnar úr íslenskri afurð.
„Að mati Neytendastofu gáfu merkingarnar ranglega til kynna að að um íslenska vöru og íslenska framleiðslu væri að ræða. Engar upplýsingar væru að finna á vörunum eða merkingum þeirra sem gæfu til til kynna að vörurnar væru ekki íslenskar. Stofnunin taldi merkingar á vörunum villandi gagnvart neytendum og til þess fallnar að hafa áhrif á eftirspurn og því brot gegn fyrrnefndum lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
Hefur Neytendastofa því bannað Drífu ehf. notkun merkinganna án þess að uppruni vörunnar komi skýrt fram. Verði ekki orðið við banninu má búast við því að tekin verði ákvörðun um sektir á grundvelli fyrrnefndra laga.“