Árás farþega á leigubílstjóra í nótt er rannsökuð sem kynferðisbrot. Maðurinn, sem er tæplega fertugur, er enn í haldi lögreglu. Árásir á leigubílstjóra má fyrst og fremst rekja til aukinnar vímuefnaneyslu, að sögn framkvæmdastjóra BSR. Hann segir þær þó heyra til algjörra undantekninga.
Bílstjórinn sem ráðist var á í nótt keyrði leigubíl frá BSR. Farþeginn, 37 ára karlmaður, sat fyrir aftan hana þegar hann réðst á hana og tók hana m.a. hálstaki. Konan náði að slíta sig lausa og kalla eftir aðstoð.
Konan leitaði í kjölfarið til slysadeildar og má eiga von á því að hún leggi fram áverkavottorð, að sögn Björgvins Björgvinssonar, yfirmanns kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Árásin hefur verið kærð og er rannsökuð sem kynferðisbrot.
Árásarmaðurinn var handtekinn á staðnum og færður í fangaklefa, en hann var vart viðræðuhæfur vegna ölvunar. Að sögn Björgvins er yfirheyrslum yfir honum enn ekki lokið, en honum verður væntanlega sleppt að þeim loknum í kvöld.
Guðmundur Börkur Thorarensen, framkvæmdastjóri BSR, segir að árásir á leigubílstjóra séu sem betur fer fátíðar. mbl.is hefur þó heimildir fyrir því að þeim leigubílstjórum hafi fjölgað sem beri á sér eitthvað til að verja sig.
Einn leigubílstjóri sem mbl.is ræddi við segist sem dæmi geyma stórt og þung vasaljós frammi í bílnum sem hann geti gripið í til að berja frá sér ef slíkar aðstæður komi upp.
„Það hefur orðið aukning frá því í gamla daga og það tengist fyrst og fremst hörðum vímuefnum, alveg eins og flest svona ofbeldis- og þjófnaðarmál í samfélaginu í dag. En 99,9% af okkar viðskiptavinum eru bara þægilegri og fínir,“ segir Guðmundur Börkur.
Fátítt er að öryggisbúnaður eins og t.d. skilrúm milli farþega og bílstjóra sé í íslenskum leigubílum. Aðspurður segir Guðmundur ekki í kortunum að slík skilrúm verði sett upp í bílum BSR.
„Bílstjórarnir keyra náttúrlega margar ferðir í viku og um helgar og þetta er eitthvað sem heyrir til algjörra undantekninga. Ef 99,9% af viðskiptavinum eru í lagi, er þá rétt að setja upp skilrúm til að forðast þetta 0,01%? Væri ekki nær að reyna að losna við vandræðaseggi samfélagsins?“
Guðmundur bendir á að leigubílar séu í dag búnir staðsetningarbúnaði og öryggishnappi þannig að bílstjórar geti óskað eftir aðstoð með skjótvirkum hætti. „Það fer beint inn á samskiptamiðstöðina okkar og til annarra bílstjóra, og þeir eru yfirleitt fljótari á staðinn heldur en lögreglan.“