Brýr á Geirsnefi í notkun í september

Framkvæmdir á nýrri göngu- og hjólaleið yfir Elliðaárósa eru vel á veg komnar og þegar hefur verið sett upp burðarvirki fyrir tvær hengibrýr. Önnur brúin mun tengja saman bakka Elliðaár en hin verður lögð yfir voginn við Geirsnef. 

Nokkur seinkun hefur verið á framkvæmdunum en fyrirhugað er að þeim ljúki fyrir lok næsta mánaðar, að sögn Björns Þórðarsonar hjá Ístaki. Hann segir að tafirnar helgist af seinkun afhendingar á efni til verksins.

Björn segir smíðina nokkuð vandasama þar sem um er að ræða hengibrýr, hún gangi þó vel „Þetta er nokkuð sérstök smíði þar sem brýrnar koma til með að hanga í burðarvirkinu,“ segir Björn.    

Með nýju tengingunni styttist leiðin á milli Grafarvogs og miðborgarinnar umtalsvert eða um  0,7 km. Á framkvæmdavef Reykjavíkurborgar segir að gert sé ráð fyrir aðskilnaði umferðar gangandi og hjólandi vegfarenda með það í huga að stuðla að bættu umferðaröryggi og gera leiðina greiðari.

Brýrnar eru um 36 metrar að lengd og nýir göngu- og hjólastígar um 280 metrar. Burðarrammar brúnna ná svo upp í 18 metra hæð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert