Nokkrum ferðaþjónustufyrirtækjum verður að líkindum lokað í samræmi við lagaheimild sem embætti ríkisskattstjóra (RSK) hefur vegna þess að þau hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu starfsmanna sinna.
RSK hefur ásamt SA og ASÍ staðið fyrir átaki gegn svartri vinnu í sumar og hefur sérstök áhersla verið lögð á ferðaþjónustuna. Hundruð fyrirtækja hafa fengið heimsóknir í tengslum við átakið, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.
„Sem betur fer náum við að leiðbeina fólki á staðnum í stærstum hluta mála. Í einhverjum tilvikum vantar að einyrkjar tilkynni sig á launagreiðendaskrá og þá aðstoðum við þá við að skrá sig. Svo erum við með þá sem ekki skila neinu og þá setjum við slíka aðila í lokunarferli,“ segir Sigurður Jensson, sviðsstjóri eftirlitssviðs RSK.