Enski boltinn hækkar um 28%

Áskrifendur greiða hærra verð fyrir að horfa á Marouane Fellaini, …
Áskrifendur greiða hærra verð fyrir að horfa á Marouane Fellaini, Leon Osman og fleiri afburða leikmenn þessu ári en var í fyrra. AFP

Stöð 2 Sport 2 hefur hækkað áskriftagjald um 28% og er mánaðarlegt áskriftargjald nú 8.990 krónur. Ari Edwald forstjóri 365 segir að hækkunina megi rekja til samkeppni í útboði og segir hann fyrirtækið borga nú rúmlega 30% hærra verð fyrir sýningarréttinn á enska boltanum en það gerði í fyrra.

„Einfalda skýringin er sú að í nýjum samningi sem gerður var hækkaði innkaupsverð meira en sem þessari hækkun nemur. Mikil samkeppni var frá innlendum aðila og verðið hækkaði um meira en 30% af þeim sökum,“ segir Ari.

Hann segir að fyrirtækið muni áfram verða með sama fjölda leikja og var á síðasta ári auk þess sem stefnan sé sett á að bæta við sérfræðingum og leikrýnum.

Þá segist hann ekki hafa orðið var við mikla óánægju hjá viðskiptavinum. „Viðskiptavinir eru aldrei ánægðir með verðhækkun, en ég held að þeir hafi sýnt þessu skilning,“ segir Ari og bendir á að fyrirtækið hafi gert ráðstafanir til þess að koma til móts við viðskiptavini með betri kjörum á internetþjónustu og heimasíma samhliða áskrift á sjónvarpsstöðinni.

Ari Edwald, forstjóri 365 miðla.
Ari Edwald, forstjóri 365 miðla. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert