Íslendingar hafa boðað til fundar strandríkja um veiðar næsta árs úr norsk-íslenska síldarstofninum í London eftir hálfan mánuð. Slíkur fundur er venjulega haldinn á haustin, en nú er boðað til fundar mánuði fyrr en venjulega vegna deilna um skiptingu síldaraflans.
Evrópusambandið hefur boðað harðar refsiaðgerðir gagnvart Færeyingum vegna verulega aukins síldarkvóta, sem Færeyingar tóku sér einhliða.
Kristján Freyr Helgason, aðalsamningamaður Íslands í viðræðum strandríkjanna um veiðar úr síldarstofninum, segist sjá framhaldið hvað varðar veiðistjórnun þannig að á fundinum í byrjun september komi Færeyingar fram með kröfur sínar og styðji þær gögnum. Hin strandríkin þurfi þá að kynna sér gögn og kröfur þeirra og í framhaldinu þurfi að setjast yfir það hvort og þá hvernig eigi að semja upp á nýtt um skiptingu síldarinnar. Íslendingar eru í forsvari vegna veiðanna 2014.
Spurður í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag hver sé munurinn á kröfum Færeyinga í síld og kröfum Íslendinga hvað varðar makríl segir Kristján Freyr að á því sé grundvallarmunur. Í makríldeilunni sé ekkert samkomulag fyrir hendi á milli strandríkjanna, en í síldinni hafi verið samkomulag sem Færeyingar hafi gengið frá með ákvörðun sinni. Íslendingar hafi stutt kröfur sínar með vísindalegum gögnum í makrílnum, en það hafi Færeyingar enn ekki gert í síldinni.