Forsætisráðherra minnkar sjálfan sig og rýrir orðspor Íslands þegar hann líkir IPA-styrkjum Evrópusambandsins við mútur. Þetta segir fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins. Þá segir hann ríkisstjórnina hafa sýnt tvöfeldni við meðferð aðildarumsóknarinnar.
Þorsteinn Pálsson gerir aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu að umtalsefni í Fréttablaðinu í dag. Þar segir hann utanríkiráðherra hafa stöðvað aðildarviðræðurnar með því að binda endahnút á starf samninganefndarinnar án þess þó að leysa hana formlega frá störfum. Þá hafi hann tilkynnt um það í Brussel að hlé hefði verið gert á viðræðunum.
„Þegar heim kom sagði hann þjóðinni hins vegar að ekki yrði staðið við fyrirheit forystu Sjálfstæðisflokksins um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda ætti viðræðunum áfram. Rökin voru þau að slíkt væri út í hött því ríkisstjórnin ætlaði ekki að leggja það til og myndi aldrei hefja viðræður að nýju.“
Hann segir að forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafi lofað því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda ætti viðræðunum áfram. „Í því felst að Ísland raski ekki þeirri stöðu sem viðræðurnar eru í fyrr en þjóðin fær að taka ákvörðun. Ella væri loforðið innihaldslaust. Sú staða sem nú er komin upp sýnir að þetta hefur mistekist.“
Þá segir hann að hugmyndin um þjóðaratkvæði hafi verið ákveðin málamiðlun og með því að virða hana ekki gefi ríkisstjórnin meirihlutavilja þjóðarinnar sem styður málamiðlunina langt nef.