Staðfest var í gær með könnunarflugi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra á þyrlu Landhelgisgæslunnar með vísindamönnum frá Veðurstofunni og Jarðvísindastofnun að ástæða vatnavaxtanna í Volgu var jökulhlaup úr jökulstíflaða lóninu Gengissiginu í Kverkfjöllum. Rennslisaukning í hlaupinu var hröð og tók göngubrúnna á Volgu af á fimmtudagskvöld.
Í Kverkfjöllum eru tvö lón, Galtarlón í Efri Hveradal og Gengissig. Gengissigið er austar og er það stærra. Það hleypur undir Kverkjökli til Volgu. Þekkt eru hlaup 1978, 1987, 1998 og 2002. Rennsli hlaupsins undanfarna daga mælist ekki á mælum fyrr en í Jökulsá á Fjöllum við Upptyppinga. Þar fór rennslið hæst í 340 rúmmetra á sekúndu sem er aukning á grunnrennsli árinnar undanfarna daga um rúma 100 rúmmetra á sekúndu. Rennslið þar hefur nú lækkað mikið en þó er enn heldur meira vatn en búast mætti við út frá veðri. Hámarkið er vel undir rennsli árinnar í rennslismiklum sumardögum en þá fer hún oft yfir 400 rúmmetra á sekúndu. Það er því ekki við því að búast að þetta vatn valdi neinum vandræðum neðar við farveg Jökulsár á Fjöllum.
Rennsli árinnar mun þó vera meira en búast má við miðað við veður og fór dagshámarkið við Grímsstaði á Fjöllum upp í 460 rúmmetra á sekúndu í dag samanborið við 410-420 rúmmetra á sekúndu undanfarna daga. Heildarrúmmál hlaupvatns sem komið er fram við Upptyppinga má meta gróft sem 5-6 milljónir rúmmetra. Í könnunarfluginu í gær sést að Gengissigið er tómt og saman borið við mat Jarðvísindastofnunar um að þann 22. júlí hafi verið 4-6 milljónir rúmmetra í lóninu má búast við að mest allt vatnið sem von er á sé komið undan jökli.
Slikjan á Löngufönn er tilkominn vegna efnis sem dreifist í gufusprengingum á jarðhitasvæðinu á botni lónsins sem hafa orðið í kjölfarið á snöggum þrýstilétti þegar vatnsborðið í lóninu fellur. Fyrsta greining sýna staðfestir að uppruni leirsins er frá jarðhitasvæðinu en ekki nýtt gosefni. Tvisvar hafa orðið gufugos/sprengingar í Kverkfjöllum, síðsumars eða haustið 1959 og í maí 1968. Áhrifasvæði þessara gufugosa voru lítil - leirdreif frá þeim náði nokkur hundruð metra frá uppstreymisstaðnum.
Enginn órói sést á jarðskjálftamælum samfara þessum atburðum en kannað verður betur á næstu dögum hvort að einhver merki sjáist í öðrum gögnum.