Sérvaldir vegna skoðanna sinna

Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formaður Samfylkingarinnar segir að sumir nefndarmanna í sérfræðihópum sem forsætisráðherra skipaði um skuldavanda heimila og afnám verðtryggingar af neytendalánum virðist hafi verið skipaðir vegna skoðana sinna frekar en vegna sérfræðiþekkingar.

Greint var frá því í gær að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hafi skipað í sérfræðingahópa um skuldavanda heimila í samræmi við þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi sem samþykkt var á Alþingi í lok júní síðastliðinn. Annars vegar er um að ræða sérfræðingahóp um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og kosti og galla leiðréttingasjóðs og hins vegar ssérfræðingahóp um afnám verðtryggingar af neytendalánum.

„Í nýskipuðum sérfræðingahópum er margt gott fólk, sem ég óska alls góðs. Sumir nefndarmanna virðast þó sérvaldir í hópinn vegna skoðana sinna – sumsé að ein niðurstaða sé betri en önnur – frekar en vegna sérfræðiþekkingar,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á samfélagsvefnum Facebook. Hann segir það ekki kunna góðri lukku að stýra ef ætlunin sé að skoða mál með opnum huga.

„Athygli vekur að ríkisstjórnarflokkar sem oft gagnrýndu stjórnarflokka á fyrri tíð fyrir skort á samráði við stjórnarandstöðu og aðila vinnumarkaðar og skort á virðingu fyrir háskólasamfélaginu skuli nú skipa sérfræðihópa án aðkomu háskólasamfélagsins og ekki leita tilnefninga aðila vinnumarkaðar eða stjórnarandstöðu,“ segir Árni Páll ennfremur. 

Hann segir ríkistjórnina vilja eiga allar lausnir og hlusta á fáa. „Það er hennar val. Ég held að slíkt skili alltaf litlu og óttast að svo verði einnig nú.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert