„Fólk var farið að streyma að klukkan níu í morgun,“ segir Anna Svava Knútsdóttir, annar eiganda ísbúðarinnar Valdís. Veðrið hefur leikið við íbúa höfuðborgarsvæðisins í dag og nýttu margir tækifærið til útiveru. Á dögum sem þessum finnst mörgum ómissandi fá sér ís til að kæla sig niður.
Venjulega opnar ísbúðin Valdís klukkan hálf 12 fyrir hádegi, en í dag fór fólkið að streyma að klukkan níu og voru dyr búðarinnar því opnaðar fyrr en venjulega fyrir spenntum viðskiptavinum.
„Hér er vöfflulykt og góð stemning,“ sagði Anna Svava í samtali við mbl.is. „Sumarið leit aðeins við aftur.“ Meðal viðskiptavina í dag voru fjórir lögregluþjónar, strætóbílstjóri og leigubílsstjóri sem allir litu við í ísbúðinni til að kæla sig niður við störf dagsins.