Annað árið í röð áætlar Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, að um 80 þúsund manns hafi komið í Landmannalaugar á um tíu vikna tímabili frá miðjum júní fram yfir miðjan ágúst.
Þessi tvö sumur eru sennilega með þeim stærstu á svæðinu og þegar mest umferð er eru gestir um tvö þúsund á einum degi. Um 80% gestanna eru erlend og stoppa flestir í 2-6 tíma. Páll segir að svæðið anni ekki fleiri gestum heldur en nú er miðað við þá aðstöðu og þjónustu sem fyrir er í Landamannalaugum.
Í samtali í Morgunblaðinu í dag segir Páll að hópum göngufólks fari fækkandi á Laugaveginum eftir miðjan ágúst, en eigi að síður hafi göngutímabilið lengst um hátt í tvær vikur og nokkuð sé um bókanir út ágústmánuð. Hann segir að 6-8 þúsund manns gangi Laugaveginn á hverju sumri, um 70% útlendingar, og þar sé sömu sögu að segja, svæðið þoli ekki mikla aukningu að óbreyttu.