Ákvörðun Evrópusambandsins um að hætta við IPA-styrki má skilja sem staðfestingu á því að ekki sé lengur litið á Ísland sem ríki í umsóknarferli. Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. Hann segir ekkert hafa komið fram sem bendi til þess að ESB muni krefjast endurgreiðslu á þeirri upphæð sem þegar hefur verið lögð í verkefni.
Gunnar Bragi skrifar um Evrópumálin á vefsvæði sitt. Hann segir að Evrópusambandið og fyrri ríkisstjórn hafi byggt upp miklar væntingar í kringum IPA-styrkina, þrátt fyrir að alþingismenn hafi varað við slíkum væntingum. „IPA-styrkir eða annar hvati frá Evrópusambandinu má ekki vera drifkrafturinn fyrir aðildarumsókn. Hún þarf að byggja á vilja sem flestra Íslendinga til að vilja aðlaga líf sitt að sambandinu.“
Þá segir hann að ekki verði um frekari viðræður við Evrópusambandið eða vinnu í tengslum við aðildarumsóknina að ræða þar sem búið sé að gera hlé. „Fólk getur treyst því að ekki verða viðræður hafnar á ný nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“