Fallegt fólk í fallegu samfélagi

Linda Ásdísardóttir kynntist mörgu mögnuðu fólki á Grænlandi, eins og …
Linda Ásdísardóttir kynntist mörgu mögnuðu fólki á Grænlandi, eins og Möggu Karlsen sem er mikilsvitur vefari í Narsaq og hefur ofið og saumað endurgerðir af fötum norrænna manna í Grænlandi. Ljósmynd/Úr einkasafni

Grænlendingar njóta ekki sannmælis hjá nágrönnum sínum Íslendingum að mati Lindu Ásdísardóttur, meistaranema í safnafræði, sem heillaðist upp úr skónum þegar hún stundaði starfsnám á söfnum Grænlands í sumar. 

„Þegar ég kom heim voru allt of margir sem spurðu aðeins um samfélagsvandamál og áfengisneyslu. Grænlendingar tala svo fallega um bæði Ísland og Íslendinga, á meðan Íslendingar tala fallega um Grænland en ekki endilega um þjóðina sjálfa. Eðlilega gerir fólk sér ekki almennilega grein fyrir því hvað þarna er fallegt samfélag, og fallegt fólk,“ segir Linda.

Hún bætir við að Grænlendingar séu jafnframt stolt þjóð í ægifögru landi. „Þeir eru bara svo hæverskir og blíðlyndir að þeir grobba sig ekki af því eins og við.“

14 söfn í strjálbýlu landi

Linda hefur lengi starfað sem safnvörður í Byggðasafni Árnesinga og Sjóminjasafninu á Eyrarbakka. Hún tók sér hlé til mastersnáms í safnafræði við Háskóla Íslands og er nýkomin heim úr annarri starfsnámsferð sinni til Grænlands, þar sem hún hefur dvalið í mánuð í senn og kynnt sér hinn grænlenska safnaheim.

Grænland er rúmlega 21 sinni stærra en Ísland og þar búa rúmlega 56 þúsund manns. Byggðirnar eru litlar og dreifðar og því kann að koma á óvart að í þessu strjálbýla landi eru alls 14 viðurkennd söfn, auk Þjóðminjasafnsins í Nuuk.

Linda var einn mánuð á Þjóðminjasafninu í Nuuk og heimsótti síðan öll söfn á Suður-Grænlandi. Um leið kynntist hún ágætis þversniði af grænlensku samfélagi. 

Menning inúíta enn lifandi

„Það var spennandi fyrir mig að koma inn í safnaumhverfi sem er svona allt öðru vísi. Þarna er allt miklu hrárra og einfaldara. Grænlensk söfn eru ekki mikið að velta fyrir sér stafrænni miðlun og framsetningu, tæknivæðingin á einfaldlega ekki erindi þarna ennþá.“

Fyrir vikið segir hún söfnin vera fallega gamaldags og látlaus. Menningu inúíta er þar gerð góð skil sem og dvöl norrænna manna og samfélagsbreytingar nýlendutímans. „Öll söfn sem ég kom á eiga gríðarlega fallega safngripi sem bera vott um einstakt handbragð og ævaforna verkmenningu, “ segir Linda. Hún veltir því þó upp hvort eðli safna stangist á við eðli inúítamenningarinnar.

„Grænlendingar halda menningu sína mjög í heiðri, bæði þjóðbúninginn, veiðiaðferðir, kajaksiglingarnar og svo framvegis. Á tímum svona hraðra samfélagsbreytinga finnst fólki það mikilvægt að börnin þekki sína menningu. En á sama tíma fannst mér ég skynja að það sé mikilvægara fyrir Grænlendinga að fá áfram að hugsa og lifa eins og inúíti. Það felst ekki endilega í því að safna gripunum og sýna þá lokaða í glerskáp á safni. Söfn eru vestræn hugmynd sem er innleidd í þeirra samfélag. Söfn þar taka fræðsluhlutverk sitt mjög alvarlega en ég veit ekki hvort þeim finnst þjóðarsálin vera þar til sýnis. Eftir tvo mánuði í landinu finnst mér ég ekki vita nóg um þeirra þjóðarsál, og finnst ég eiga mikið eftir ólært.“

Ferðamennirnir koma í gusum

Í seinni ferð sinni var Linda í starfsnámi í byggðasafni Qaqortoq, höfuðstaðar Suður-Grænlands sem er mikill ævintýraheimur að hennar sögn. Í Qaqortoq búa um 3000 manns. Bærinn er afskekktur í hugum Íslendinga, þangað er um tveggja klukkustunda sigling frá flugvellinum í Narsarsuaq.

Raunar eru engir tveir þéttbýliskjarnar á Grænlandi tengdir með vegi. Samfélagið er því mjög háð samgöngum í lofti og á legi. Ferðamennskan einkennist t.d. mjög af skemmtiferðaskipum, og má segja að Qaqortoq umturnist þegar stóru skipin leggja þar að bryggju.

„Þessi litli, afskekkti staður fær 10 þúsund gesti á ári þegar skemmtiferðaskipin streyma inn og í örfá klukkutíma er bærinn stappfullur af fólki. Og allir fara á safnið,“ segir Linda.

„Þetta er land þar sem bátur er mikilvægari en bíll. Þarna kynntist ég t.d. konu sem er með pungapróf en ekki bílpróf. Í fyrstu leið mér eins og ég væri í algjörri einangrun í Qaqartoq þar sem engir vegir liggja neitt, en hafið er eins og þjóðbraut og áður en ég vissi af var ég lögð af stað til að skoða önnur söfn og þá miklu sögustaði norrænna manna sem þarna er alls staðar að finna. Í einhverjum tilfellum þurfti ég að sníkja mér bátsfar eða splæsa í þyrlu, en einmitt þannig er Grænland.“

Meira en bara hundasleðar og veiðiferðir

Grænland er okkar næsti nágranni en Íslendingar virðast hafa þessa stærstu eyju heims svolítið í blinda blettinum, ef marka má Lindu. „Fjölmargir Íslendingar heimsækja landið, búa þar eða vinna tímabundið, en almennt hættir okkur til að hugsa bara um Austur-Grænland, hundasleðaferðir og hreindýraveiðar.“

Hún segir Grænland hafa upp á mun meira að bjóða en margir átti sig á, og nefnir sem dæmi fallega tískuvöru í verslunum höfuðstaðarins Nuuk. „Í Nuuk er fínt úrval af fötum, skóm og skartgripum úr beini. Þar er líka æðisleg sundlaug með útsýni út á sjó. Ég fór líka á reggítónleika með nokkur hundruð Grænlendingum í menningarhúsinu í Nuuk. Hver hefði trúað því?“

Sjálf segist hún iða í skinninu að koma á fót samstarfsverkefni við  grænlensk söfn um að sýna verkmenningu þeirra eða ljósmyndir hér á land og nefnir grænlensku sýninguna Norðrið í norðrinu á Dalvík sem fyrirmyndarverkefni.

Og Linda mælir eindregið með því að Íslendingar líti sér nær og heimsæki nágranna sína „Stórkostleg náttúra Grænlands er heillandi, en ég er samt mest upprifin yfir fólkinu og samfélaginu. Það var stórkostlegt að njóta þeirra forréttinda að hitta fólkið í þessu landi, sem er það blíðasta og hlýjasta sem ég hef kynnst.“

Qaqartoq á Suður-Grænlandi er fallegur lítill bær með litríkum húsum. …
Qaqartoq á Suður-Grænlandi er fallegur lítill bær með litríkum húsum. Svarta húsið fremst er safnið í Qaqartoq. Ljósmynd/Linda Ásdísardóttir
Hláturmildi lyklavörðurinn Lars vaktar langhúsið í Þjóðhildarkirkju í Brattahlíð (Qassiarsuq) …
Hláturmildi lyklavörðurinn Lars vaktar langhúsið í Þjóðhildarkirkju í Brattahlíð (Qassiarsuq) er einn af því minnisstæða fólki sem Linda vann með á Grænlandi. Ljósmynd/Linda Ásdísardóttir
Grænlenska óvættin túpílak er viðfræg. Í Qaqortoq er að finna …
Grænlenska óvættin túpílak er viðfræg. Í Qaqortoq er að finna eisntakt safn túpílaka gerðum af listamönnum staðarins. Ljósmynd/Linda Ásdísardóttir
Þrjú ungmenni tóku Lindu á rúntinn og sigldu með hana …
Þrjú ungmenni tóku Lindu á rúntinn og sigldu með hana út í hina sögufrægu Hvalseyjarfjarðarkirkju. Siglingin meðal ísjakana var jafneftirminnileg og kirkjan sjálf. Ljósmynd/Linda Ásdísardóttir
Endurgerð á torfbæ inúíta.
Endurgerð á torfbæ inúíta. Ljósmynd/Linda Ásdísardóttir
Náttúrufegurðin er mikil í Grænlandi og fara því margir þangað …
Náttúrufegurðin er mikil í Grænlandi og fara því margir þangað til útivistar, en samfélagið er ekki síður vert að kynnast að sögn Lindu. mbl.is/rax
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert