Stóraukið laxeldi hér á landi

Sjókvíaeldi við Íslandsstrendur.
Sjókvíaeldi við Íslandsstrendur. mbl.is/RAX

Fyrirhugað er stóraukið laxeldi hér á landi en búið er að gefa leyfi fyrir framleiðslu á yfir 20 þúsund tonnum af norskum laxi í sjókvíaeldi. Það er mun meira en framleitt var á síðasta ári eða tæp 3 þúsund tonn. Nýlega voru birtar niðurstöður íslenskrar rannsóknar um áhrif eldislax á stofngerð náttúrulegs lax í árkerfi Elliðaáa en þar kemur meðal annars fram að líklegt sé að erfðablöndun við eldislax hafi raskað stofngerð villta laxins í árkerfi Elliðaánna. Talið er að þessi erfðablöndun hafi orðið þegar íslenskur eldislax gekk í Elliðaárnar á níunda og tíunda áratug síðustu aldar.

Mikill fjöldi getur sloppið í árnar

„Sagan segir að það verða slys í sjókvíaeldi,“ segir Leó Alexander Guðmundsson, sérfræðingur frá Veiðimálastofnun og aðalhöfundur skýrslunnar. „Reynslan sýnir að gera megi ráð fyrir að það sleppi einn lax á hvert framleitt tonn. Miðað við fyrirhugaða framleiðslu má gera ráð fyrir að mikill fjöldi geti sloppið.“

Leó segir að sé laxinn sem sleppi í gegn kynþroska, reyni fiskurinn að leita upp í laxveiðiár til að hrygna, sleppi hann um sumar eða haust. "Ef framleiðslan er aukin, þá skapast meiri hætta fyrir villta stofna," segir Leó og þar af leiðandi eru meiri líkur á að erfðablöndun verði.
 
Leó bendir á að í fyrra hafi verið birt rannsókn í Noregi sem tók yfir miklu stærra svæði en rannsóknin sem gerð var hér á landi. Hann segir niðurstöður norsku rannsóknarinnar mjög svipaðar og þær íslensku sem birtust nýlega, að eldisfiskur sem gekk í ár hafi blandast laxinum sem þar var fyrir og stofngerð villtra laxa hafi breyst í kjölfarið.

Frekari rannsóknir mikilvægar

Íslenski eldislaxinn gekk í fleiri ár hér á landi en í Elliðaárnar á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Ekki hefur verið rannsakað hvort starfssemi laxeldisisins síðastliðinn áratug hafi haft einhver áhrif, en þar er um norskan fisk að ræða. Aðspurður segist Leó telja æskilegt að áhrif eldislaxsins á árnar verði kannaðar með erfðafræðilegum aðferðum.

„Ef stefnt er að auknu eldi, þá er það auðvitað enn brýnna.“ Hann segir einnig mikilvægt að umræðan um umhverfisáhrif laxeldis sé upplýst. „Við verðum að þekkja áhrif framleiðslunnar á norska laxinum á þann villta íslenska,“ segir Leó.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert