Búið að slá 23 milljónir af húsinu

Fasteignin Sunnuflöt 48 var fyrst auglýst til sölu í byrjun …
Fasteignin Sunnuflöt 48 var fyrst auglýst til sölu í byrjun nóvember í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Búið er að lækka verð á Sunnuflöt 48 í Garðabæ, en það er eitt stærsta einbýlishús landsins. Húsið er núna auglýst á 69,8 milljónir en var auglýst á 93 milljónir í nóvember þegar það var fyrst auglýst til sölu. Það er því búið að lækka verðið um 23,2 milljónir. Húsið er í eigu Landsbankans.

Sagt var frá húsinu á mbl.is þegar það kom fyrst í sölu. Fasteignasali sem mbl.is ræddi við í dag segir að húsið sé erfitt í sölu. Það sé stórt og kosti mikla peninga að klára það. Hópurinn sem geti keypt svona stóra eign sé ekki stór.

Á fasteignavef mbl.is kemur fram að húsið er 932 fm, en þar af er bílskúr 63 fm. Húsið, sem er á fallegum stað innst í botnlanga við Sunnuflöt í Garðabæ, er tvær hæðir og hannað af Gassa arkitektum. Húsið stendur á um 1590 fm lóð. Lóðin er afgirt með steyptri girðingu.

Búið er að steypa húsið upp og loka því til bráðabirgða. Eftir er að setja glugga í það. Talið er að það geti kostað 150-250 milljónir að klára húsið.

Samkvæmt teikningum er gert ráð fyrir á efri hæðinni anddyri, gestasalerni, forrými, eldhúsi, borðstofu, stofu með arni, sjónvarpsstofu, hjónaherbergi með baðherbergi, fataherbergi, baðherbergi, tveimur herbergjum, skrifstofu, þvottaherbergi og bílskúr.

Neðri hæð skiptist í: Herbergi, fataherbergi, baðherbergi, tómstundaherbergi, vínkjallara, forrými, lagnarými, fitness, baðrými með sundlaug og heitum potti, búningsherbergi með salerni, sturtum, köldum potti og gufubaði.

Ekki fengust upplýsingar um hversu mikla fjármuni er búið að leggja í byggingu hússins nú þegar, en þó er ljóst að það er langtum meira en þær tæplega 70 milljónir sem Landsbankinn vill fá fyrir húsið.

Talið er að það geti kostað um eða yfir 200 …
Talið er að það geti kostað um eða yfir 200 milljónir að fullgera Sunnuflöt 48.
Sunnuflöt 48 er á um 1590 fm lóð. Lóðin er …
Sunnuflöt 48 er á um 1590 fm lóð. Lóðin er afgirt með steyptri girðingu.
Svona á húsið að líta út þegar það hefur verið …
Svona á húsið að líta út þegar það hefur verið fullbyggt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert