Framkvæmdasýslan hefur birt auglýsingu þar sem óskað er eftir tilboðum í framkvæmdir við fangelsi á Hólmsheiði. Húsið er steinsteypt og klætt að hluta og skal ganga frá því að utan og innan ásamt lóðarfrágangi.
Í auglýsingunni kemur fram að verkinu skal vera að fullu lokið eigi síðar en 1. desember 2015. Tilboðin verða opnuð í Ríkiskaupum 5. desember nk.
Nýja fangelsið verður móttöku- og gæsluvarðhaldsfangelsi. Fangarými verða 56 og þar verður sérstök deild fyrir kvenfanga og aðstaða fyrir afplánun skemmri fangelsisrefsinga og vararefsinga. Hönnun fangelsisins er með þeim hætti að hægt verður að stækka og minnka fangadeildir eftir þörfum sem gera mun nýtingu fangelsisins betri. Öll aðstaða fanga svo sem fyrir vinnu, nám, íþróttaiðkun og síðast en ekki síst aðstaða til heimsókna verður mun betri en í þeim fangelsum sem nú eru í notkun.
Nýja fangelsið mun leysa af hólmi Hegningarhúsið við Skólavörðustíg í Reykjavík, sem starfrækt hefur verið í 140 ár, og Fangelsið Kópavogsbraut 17 en hvorugt fangelsið uppfyllir nútímakröfur um fangavist. Þá verður gæsluvarðhaldsdeild í Fangelsinu Litla-Hrauni lögð niður og aðstaða hennar tekin fyrir afplánun.
Jarðvegsframkvæmdir við fangelsið á Hólmsheiði hófust í júní.