Áhyggjum veldur hversu lítill hagvöxtur mælist um þessar mundir, en hann er langt undir því sem forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir. Fyrir vikið verður erfiðara að loka fjárlagagatinu.
Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, en horfur eru á að hagvöxtur hér á landi verði rétt rúmlega eitt prósent á þessu ári. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir hann mikla vinnu í gangi í öllum ráðuneytum til þess að undirbúa fyrsta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, gagnrýndi ríkisstjórnina á dögunum þegar rætt var um stöðuna í aðdraganda kjarasamninga. Þar sagði hann m.a. að sigið hefði á ógæfuhliðina hvað hagvöxt og uppbyggingu varðar og kallaði eftir aðgerðum. Hann sagði dökk ský vera við sjóndeildarhring sem neikvæð áhrif hefðu á gerð kjarasamninga í haust.