„Mér finnst rétt að því sé haldið til haga í þessari umræðu að báðir ríkisstjórnarflokkarnir tóku þannig til orða í landsfundarályktunum sínum að aðildarviðræðunum skyldi hætt og að þeim yrði ekki haldið áfram nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var mjög svipað orðalag í báðum ályktununum hvað þetta varðaði. Það endurspeglaðist í ríkisstjórnarsáttmálanum frá í maí og eftir þeirri stefnu hefur verið unnið.“
Þetta segir Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, í samtali við mbl.is. Hann bætir við að í þessu felist að viðræðunum við Evrópusambandið hafi verið hætt en ákvörðun um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald málsins hafi ekki verið tekin. Hvorki hvort af slíkri atkvæðagreiðslu verði á þessu kjörtímabili né hvenær. Þeir sem setji fram annan skilning á málinu séu einfaldlega að lýsa eigin skoðunum en hvorki stefnu ríkisstjórnarinnar né flokkanna sem að henni standi.
Til Alþingis þegar skýrslan liggur fyrir
„Það liggur fyrir að viðræðunum hefur verið hætt með þeim hætti að bæði pólitískum og tæknilegum viðræðum við Evrópusambandið hefur verið hætt. Það liggur líka fyrir að utanríkisráðherra hefur það verkefni að hafa forgöngu um gerð skýrslu um stöðu viðræðnanna og stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Meðal annars hvernig sambandið hefur verið að þróast. Það hefur komið skýrt fram að þessi mál munu auðvitað koma til umræðu og umfjöllunar á Alþingi þegar sú skýrsla liggur fyrir,“ segir hann ennfremur.
Birgir segir að það sem skipti meginmáli á þessum tímapunkti sé að undirstrika að ákvörðun um það hvort þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin, hvenær og um hvað verði spurt sé viðfangsefni sem krefjist nýrrar og sjálfstæðrar ákvörðunar sem ekki hafi verið tekin. „Það er auðvitað augljóst og sést á ummælum í fjölmiðlum að mönnum liggur mismikið á að taka þá ákvörðun.“