Kona féll af reiðhjóli á Laugarvatnsvegi um klukkan tvö síðastliðinn laugardag. Hún var flutt með sjúkrabifreið á heilsugæslustöð til skoðunar. Svo virðist sem hún hafi rotast við fallið, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi.
Aðfaranótt sunnudags rotaðist maður sem skall utan í brúarstöpul Ölfusárbrúar á Selfossi. Maðurinn hafði verið á hlaupum við Pylsuvagninn er hann hnaut um stein og missti jafnvægið með fyrrgreindum afleiðingum. Lögregla og sjúkralið fór á staðinn. Lögreglumenn urðu að hverfa frá verkefninu vegna verkefnis sem kom upp á Flúðum er metið var áríðandi.
Rétt fyrir klukkan eitt á laugardag var grárri Suzuki Vitara bifreið bakkað á rauða Nissan Almara bifreið sem var kyrrstæð og mannlaus á bifreiðastæði við sundlaug Selfoss. Ökumaður Suzuki bifreiðarinnar ók af vettvangi án þess að gera viðvart. Vitni var að ákeyrslunni en það náði ekki að sjá skráningarnúmer Suzuki bifreiðarinnar. Lögreglan biður ökumann umræddrar bifreiðar og þá sem geta veitt frekari upplýsingar að hafa samband við lögreglu í síma 480 1010.
Síðastliðinn laugardagsmorgun var kortaveski stolið úr fataskáp sundlaugargests sundlaugarinnar í Laugaskarði í Hveragerði. Skápurinn var læstur en þjófurinn braut hann upp. Atvikið átti sér stað á milli klukkan níu og tíu. Lögreglan hefur farið yfir eftirlitsmyndavél í afgreiðslu sundlaugarinnar en þjófurinn er ófundinn.