Rúmlega 34 þúsund undirskriftir hafa safnast í undirskriftasöfnun þar sem skorað er á Reykjavíkurborg og Alþingi að tryggja að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram starfræktur í Vatnsmýrinni en söfnunin hófst um síðustu helgi.
„Flugvöllurinn í Vatnsmýri er hjartað sem slær allan sólahringinn árið um kring. Þangað koma og fara slasaðir á bráðamóttöku, sjúkir á sjúkrahús, starfsmenn á fundi, vörur til fyrirtækja, embættismenn í stjórnsýslu, ferðamenn í ferðaþjónustu, nemendur til náms, auk þess sem völlurinn er hjartað í flugsögu Íslendinga aftur til ársins 1919,“ segir á vefsíðunni Lending.is þar sem söfnunin fer fram.
Gert er ráð fyrir að undirskriftirnar verði afhentar 20. september þegar frestur til þess að gera athugasemdir við aðalskipulag Reykjavíkurborgar rennur út en samkvæmt því er gert ráð fyrir að flugvöllurinn víki í áföngum fyrir blandaðri byggð.