Löndunarbann ESB tekur gildi eftir viku

Ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB er tilkomin vegna veiða Færeyinga á síld.
Ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB er tilkomin vegna veiða Færeyinga á síld. mbl.is/Helgi Bjarnason

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur tilkynnt að bann við innflutningi og löndun á síld og makríl frá Færeyjum taki formlega gildi viku eftir að tilkynningin er birt í stjórnartíðindum ESB (Official Journal). Í tilkynningunni kemur fram að ESB sé að undirbúa sambærilegar aðgerðir gegn Íslendingum vegna veiða þeirra á makríl.

Í tilkynningunni segir að gripið sé til aðgerðanna vegna ósjálfbærra veiða Færeyinga á síld úr norsk-íslenska síldarstofninum. Aðgerðirnar feli í sér bann við löndum færeyskra skipa á síld og makríl sem skip sem Færeyingar stýra hafa veitt úr þessum stofnum. Bannið nær einnig til afurða sem unnar eru úr afla úr þessum stofnum. Þá kemur fram í tilkynningunni að færeysk skip fái ekki að leita hafnar í ESB-löndum nema í neyðartilvikum.

Haft er eftir Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, í tilkynningunni að það sé ávallt síðasta úrræði að grípa til svona þvingunaraðgerða. Færeyingar hafi átt þann kost að hætta ósjálfbærum veiðum, en valið að gera það ekki. „Það má núna vera öllum ljóst að ESB ætlar að nota allar leiðir sem eru færar til að tryggja sjálfbærar veiðar á fiskistofnum.“

Í tilkynningunni segir að ESB eigi í sambærilegri deilu við Ísland vegna stjórnunar á veiðum á makríl. „Framkvæmdastjórnin hefur ekki enn gripið til aðgerða vegna þessarar deilu. Framkvæmdastjórnin hefur hins vegar einnig hafið undirbúning að því að hrinda í framkvæmd aðgerðum sem kveðið er á um í viðskiptasamningi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka