Borgarstjórastarfið að verða skemmtilegra

„Það er gaman að vera borgarstjóri Reykjavíkur á Menningarnótt,“ segir borgarstjórinn Jón Gnarr sem kynnti dagskrá hátíðarinnar í dag. Kjörtímabili Jóns lýkur í vor en hann útilokar ekki að hann verði áfram borgarstjóri á næsta ári. „Þetta er nú að verða skemmtilegra og skemmtilegra starf.“

Jón og aðrir forsvarsmenn hátíðarinnar upplýstu fréttamenn um dagskrá Menningarnætur á blaðamannafundi sem fór fram á bátnum Lunda í smábáthöfninni við tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu.

„Ég held að ég hlakki meira til Menningarnætur en jólanna,“ sagði borgarstjórinn, sem hvetur fjölskyldur til að fara saman í bæinn.

Jón bætir við að hann vilji helst að sem flestir komi gangandi, hjólandi eða með almenningssamgöngum, en þess ber að geta að ókeypis verður í strætó á Menningarnótt. Kjörorð hátíðarinnar ,„Gakktu í bæinn“, er vísun í íslenska gestrisni en um leið er verið að hvetja fólk til að skilja bílinn eftir heima. Það mikilvægasta sé hins vegar að allir komist heilir heim.

Þetta er í fjórða sinn sem Jón kynnir dagskrá Menningarnætur. Á næsta ári fara fram borgarstjórnarkosningar og var Jón því spurður hvort þetta væri í síðasta sinn sem hann kynni dagskrána sem borgarstjóri.

„Ég er nú ekkert alveg viss um það. Þetta er nú að verða skemmtilegra og skemmtilegra starf“, segir Jón og hlær. Hann bætir við að hann sé nú að velta því fyrir sér hvort hann eigi að gefa kost á sér til endurkjörs á næsta ári.

„Ég er að velta fyrir mér kostum og göllum þess og að skoða hug minn og aðstæður,“ segir hann. Ekki sé hægt að segja til um það nú hvort og þá hvenær sú ákvörðun verði kynnt.

Allar nánari upplýsingar um hátíðina er að finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert