„Við höfum verið að vinna með Færeyingum síðustu vikur, skiptast á upplýsingum og haft fullkomið samráð við þá vegna aðgerða Evrópusambandsins og þess sem má vænta. Við munum að sjálfsögðu halda því áfram. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar kom náttúrulega bara á föstudaginn og það getur vel verið að við bregðumst við aftur þegar að það liggur fyrir hvaða aðgerðir sambandið ætlar í.“
Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannesson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í samtali við mbl.is spurður að því með hvaða hætti íslensk stjórnvöld ætli að bregðast við ákvörðun Evrópusambandsins um að beita Færeyinga refsiaðgerðum vegna makríl- og síldveiða þeirra og hótunum sambandsins um refsiaðgerðir gegn Íslandi. Hann segir einnig koma til greina að beitt verði öllum leiðum til þess að koma þeim sjónarmiðum íslenskra stjórnvalda á framfæri að um ólögmætar aðgerðir sé að ræða og að fara eigi aðrar leiðir til þess að leysa slík ágreiningsmál.
Þiggur fundarboð en heldur áfram að hóta
Spurður hvort Ísland kunni að grípa til einhverra aðgerða til þess að styðja Færeyinga segir hann: „Það er náttúrulega starfandi starfshópur sem meðal annars er að kortleggja möguleg viðbrögð okkar. Hann vinnur það meðal annars með Færeyingum þar sem menn skiptast á upplýsingum. Það er ekkert útilokað að eitthvað komi frá þeim sem menn telja skynsamlegt að grípa til. Það er sem sagt verið að kortleggja stöðuna, við útilokum ekkert og teljum þetta ólögmætar aðgerðir og mótmælum þeim harðlega eins og við höfum gert og teljum að það eigi að fara aðrar leiðir að því að ná niðurstöðu í þessi mál. Síðan höfum við bent á að ef Evrópusambandið treystir sér til þess að ráðast gegn Færeyingum og síðan okkur þá ættu þeir samkvæmt jafnræðisreglu að ráðast gegn Rússum jafnframt,“ segir ráðherrann.
Sigurður Ingi segir ennfremur ljóst að hótanir Evrópusambandsins haldi áfram í garð Íslands. Meðal annars í tilkynningu sambandsins um refsiaðgerðirnar gegn Færeyingum. Slíkt sé ekki frekar en fyrri daginn til þess fallið að leysa makrídeiluna. Hún verði aðeins leyst við samningaborðið en sambandið hafi þegið boð um að mæta ásamt öðrum aðilum málsins til fundar um það í september. Ráðherrann bendir á tvískinnung sem í þessu felist. Evrópusambandið sé á aðra höndina reiðubúið að halda áfram að reyna að ná samningum um makrílinn en hóti öllu illu með hinni.
„Við höfum ævinlega sagt það að svona hótanir um aðgerðir sem við teljum ólögmætar geti ekki annað en eitrað andrúmsloftið.“