Birgitta vonsvikin með dóm Mannings

Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata. mbl.is/Ómar Óskarsson

Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, segist vera vonsvikin með lengd dóms Bradley Mannings, en Manning var dæmdur í 35 ára fangelsi í dag. „Það er ótrúlega sárt að horfa upp á þá staðreynd að það hefur enginn annar verið dreginn til ábyrgðar fyrir þá stríðsglæpi sem Manning afhjúpaði, meðal annars í þessu myndbandi. En nú hefur komið upp á yfirborðið margt í bandarísku samfélagi sem er áhugavert. Meðal annars laug yfirmaður NSA (Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna) að bandaríska þinginu. Hún hefur til dæmis ekki þurft að sæta ábyrgð fyrir það,“ segir Birgitta. 

Hún skrifar í dag grein á vefsvæði The Guardian, þar sem hún fjallar um dóm Mannings. Þar lýsir hún meðal annars yfir vonbrigðum sínum með Barack Obama Bandaríkjaforseta, sem fyrrum prófessor í stjórnskipunarrétti, og hún reynir að sýna fram á tvískinnung í málflutningi Obama.

„Við teljum þetta vera afturför fyrir bandarískt samfélag. Núna erum við í „Bradley Manning support network“ að undirbúa það að skora á næsta forseta Bandaríkjanna að náða Manning. Það eru alvarlegir hlutir í gerjun, bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi, og við verðum að hafa augun opin svo þetta fari ekki að smitast yfir til annarra landa, eins og til dæmis hingað.“

Stuðningsmenn Mannings hér á landi ætla að standa fyrir stuðningsfundi fyrir utan bandaríska sendiráðið á morgun kl. 17. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert