Hefur selt jarðir fyrir milljarð

Verðmætasta eign Lífsvals er jörðin Flatey á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu. …
Verðmætasta eign Lífsvals er jörðin Flatey á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu. Þar er rekið eitt stærsta kúabú landsins. Búið og jörðin eru auglýst til sölu á 480 milljónir. mbl.is/Sigurður Mar Halldórsson

Jarðafélagið Lífsval hefur selt jarðir á síðustu mánuðum fyrir rúmlega einn milljarð. Félagið átti 41 jörð þegar sala á jörðunum hófst á síðasta ári og hafa 16 verið seldar. Verið er að ganga frá sölu á tveimur til viðbótar. Stjórnarformaður félagsins vonast eftir að Landsbankinn verði ekki fyrir fjártjóni vegna lánveitinga til Lífsvals.

Lífsval var stofnað árið 2002, en eigendur þess voru nokkrir einstaklingar sem m.a. höfðu tengst viðskiptum með jarðir. Grunnhugmyndin að baki félaginu var að fjárfesta í landi enda töldu eigendur þess það vera örugga fjárfestingu til langs tíma. Jafnframt var markmið félagsins að nýta landið m.a. með markvissri uppbyggingu landbúnaðar.

Landsbankinn á 88% í Lífsvali

Landsbanki Íslands var einn af eigendum Lífsvals frá upphafi og fjárhagslegur bakhjarl þess. Árið 2010 var hlutur bankans 19%, en hann var þá stærsti hluthafinn.

Vorið 2012 eignaðist Landsbankinn meirihluta í félaginu eftir að nokkrir af eigendum þess gátu ekki staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Bankinn myndaði síðan meirihluta í stjórn félagsins. Um síðustu áramót átti Landsbankinn 75% hlutafjár, en hlutur bankans er nú kominn upp í 88%.

Jón Steingrímsson, stjórnarformaður Lífsvals, stýrir félaginu fyrir hönd Landsbankans. Hann segir að Landsbankinn hafi ekki yfirtekið félagið, en á síðasta ári hafi verið myndaður nýr meirihluti í stjórn félagsins og stjórnin markað þá stefnu að hefja skipulega sölu jarða í eigu félagsins í þeim tilgangi að greiða niður skuldir.

Jón segir að sala á jörðunum hafi gengið vel og í samræmi við áætlun. Félagið hafi gefið sér þrjú ár að selja allar jarðirnar. Í upphafi hafi 19 jarðir verið auglýstar til sölu, en Landsbankinn hafi ekki viljað setja allar jarðirnar í sölu í einu þar sem það hafi getað skapað offramboð á jörðum. Nú er hins vegar búið að auglýsa allar jarðirnar til sölu.

Búið að selja 16 jarðir

Lífsval á í dag 25 jarðir. Seldar hafa verið 16 jarðir á síðustu 15 mánuðum og verið er að ganga frá sölu á tveimur jörðum til viðbótar. Jarðirnar sem seldar hafa verið eru Brekka, Neðri-Brekka, Kirkjuból og 50% eignarhluti í Tungu, en þessar jarðir eru við Ísafjarðardjúp. Þá hafa jarðirnar Nes, Gásir, Möðrufell og Ytra-Fell í Eyjafirði verið seldar. Sama á við um Þjóðólfstungu við Bolungarvík, Skógskot í Dalabyggð, Skriðufell í Barðastrandarsýslu, Sleðbrjót I. og II. í Jökulshlíð, Einholt á Mýrum við Hornafjörð, Nýi-Bær við Kirkjubæjarklaustur, Norður-Botn við Tálknafjörð og Skriðufell í Jökulsárhlíð.

Sumar jarðirnar sem Lífsval átti voru í leigu, en eftir að Landsbankinn hóf að stýra félaginu hafa engir nýir leigusamningar verið gerðir. Leigjendum félagsins hefur því fækkað smám saman síðustu 15 mánuði.

Það var stundaður búskapur á vegum Lífsvals á fimm jörðum þegar ný stjórn tók við. Félagið rak þrjú kúabú, þ.e. að Flatey á Mýrum við Hornafjörð, Skriðufelli í Jökulsárhlíð og á Ytra-Felli í Eyjafjarðarsveit. Rekin voru tvö sauðfjárbú, annars vegar í Miðdal í Skagafirði og hins vegar á Barkarstöðum í Húnavatnssýslu. Starfsmenn Lífsvals við þessi bú voru 15. Í dag hefur kúabúið á Ytra-Felli verið selt og rekstri kúabúsins á Skriðufelli verið hætt. Starfsmenn Lífsvals í dag eru 10. Þau bú sem ennþá eru í eigu félagsins eru öll til sölu og vonast Landsbankinn að sölu þeirra ljúki á þessu ári.

Flatey kostar 480 milljónir og margir sýna jörðinni áhuga

Verðmætasta eign Lífsvals er búið á Flatey, en það er auglýst til sölu á fasteignavef Morgunblaðsins á 480 milljónir. Félagið á einnig hlut í jörðinni Kyljuholti við Hornafjörð, sem búið á Flatey hefur nýtt. Kyljuholt og Flatey hafa sameiginlega einnig verið auglýst til sölu á 520 milljónir.

Jón segir að margir hafi sýnt búinu á Flatey áhuga og viðræður séu í gangi. Hann vonast eftir að menn nái saman um verð fljótlega þannig að hægt verði að ganga frá sölunni fyrir áramót.

Næstverðmætasta jörð í eigu Lífsvals er Svartagil í Borgarfirði, en hún er auglýst til sölu á 250 milljónir. Jörðin er landmikil og henni fylgja veiðihlunnindi í Norðurá. Fyrir nokkrum árum var þar borað eftir heitu vatni með góðum árangri. Á Svartagili er stundað eldi á kjúklingum.

Jörðin Skriðufell er auglýst til sölu á 50 milljónir, sauðfjárbúið að Miðdal í Skagafirði er auglýst til sölu á 136 milljónir og sauðfjárbúið að Barkarstöðum er auglýst til sölu á 108 milljónir.

Átti mjólkurkvóta að verðmæti 275 milljóna

Hluti af eignum Lífsvals var mjólkurkvóti upp á samtals 857 þúsund lítra. Stærstur hluti hans, eða 507 þúsund lítrar, fylgir Flatey. 300 þúsund lítra kvóti á Ytra-Felli var seldur um leið og búið var selt. 50 þúsund lítra kvóti sem fylgdi Skriðufelli verður seldur á markaði í haust.

Mjólkurkvóti hefur að undanförnu verið seldur á kvótamarkaði á um 320 krónur lítrinn. Kvótinn sem Lífsval átti var því tæplega 275 milljóna virði.

Stefnt að því að Landsbankinn sleppi óskaðaður frá sölunni

Þegar hrunið skall á voru eignir Lífsvals metnar í bókhaldi á 5,2 milljarðar og þá skuldaði félagið Landsbankanum 2,4 milljarða. Um síðustu áramót, eftir að sala á jörðunum var hafinn, námu bókfærðar eignir Lífsvals tæplega 2,4 milljörðum króna.

Jón segir að því stefnt að Landsbankinn verði ekki fyrir fjártjóni af lánveitingum til Lífsvals. Hann segir aðspurður rétt að verð á jörðum sé lægra nú en það var fyrir hrun. Það hafi þó alls ekki orðið neitt hrun á jarðaverði. Hann segir að það megi alltaf deila um hvenær sé rétti tíminn fyrir bankann að selja. Enginn viti hvað gerist eftir 1-2 ár. „Það er ekki hlutverk bankans að standa í einhverjum fjárfestingum á jörðum og reyna að fara veðja á hvort verðið muni hækka eða lækka.“

Sænskur timburframleiðandi keypti þrjár og hálfa jörð við Ísafjarðardjúp

Jón segir að ýmsir aðilar hafi keypt jarðirnar. Þetta séu bæði einstaklingar og félög. Einn útlendingur hafi keypt jarðir af félaginu. Hann segir að kúabúið á Ytra-Felli hafi verið selt þeim sem rak búið meðan það var í eigu Lífsvals. Fleiri tóku reyndar þátt í kaupunum á búinu.

Á jörðinni Norður-Botni við Tálknafjörð er stundað fiskeldi og félagið sem stendur að fiskeldinu keypti jörðina.

Sænski timburframleiðandi John Harald Örneberg keypti jarðir Lífsvals í Langadal við Ísafjarðardjúp, en gengið var frá sölunni á síðasta ári. Hann keypti þrjár og hálfa jörð  undir merkjum eignarhaldsfélagsins Varpland.

Gunnar Sólnes, lögfræðingur á Akureyri, situr í stjórn Varplands. Hann segir að Örneberg hafi áhuga á veiði, skógrækt og náttúruvernd og það sé það sem reki hann til þess að kaupa jarðir á Íslandi. Hann hafi einnig áhuga á að fljúga með snjóbrettamenn í þyrlu í skíðabrekkur eins og farið er að gera á Akureyri. Gunnar segir að Örneberg sé ekkert byrjaður að framkvæma á jörðunum. Hann hafi falið Skjólskógum á Vestfjörðum að meta jarðirnar með tilliti til skógræktar.

Í frétt RÚV á síðasta ári um jarðakaup Örnebergs segir að kaupverðið sé um 250 milljónir. Gunnar segir að verði sé ekki svo hátt, en þó ekki fjarri lagi.

Landsbankinn a í dag 88% hlutafjár í Lífsvali.
Landsbankinn a í dag 88% hlutafjár í Lífsvali. mbl.is/Hjörtur
Lífsval á mjólkurkvóta að verðmæti um 178 milljónir. Fyrirtækið er …
Lífsval á mjólkurkvóta að verðmæti um 178 milljónir. Fyrirtækið er búinn að selja mjólkurkvóta sem fylgdi kúabúinu að Ytra-Felli í Eyjafjarðarsveit, en markaðsvirði hans er yfir 90 milljónir. mbl.is/Golli
Lífsval rekur sauðfjárbú í dag. Sauðfjárbúið að Miðdal í Skagafirði …
Lífsval rekur sauðfjárbú í dag. Sauðfjárbúið að Miðdal í Skagafirði er auglýst til sölu á 136 milljónir og sauðfjárbúið að Barkarstöðum í Húnavatnssýslu er auglýst til sölu á 108 milljónir. mbl.is/Árni Torfason
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert