Manning situr inni fyrir Ísland

Bradley Manning var dæmdur í 35 ára fangelsi fyrir uppljóstranir …
Bradley Manning var dæmdur í 35 ára fangelsi fyrir uppljóstranir sínar. AFP

IMMI, alþjóðleg stofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi segir það valda gríðarlegum vonbrigðum að Bradley Manning hafi fengið 35 ára fangelsisdóm fyrir að ljóstra upp um stríðsglæpi en að enginn sé látinn sæta ábyrgð fyrir umrædda stríðsglæpi.

Hún segir dóminn bæði alvarlegan fyrir Manning og fjölskyldu hans, en einnig fyrir upplýsinga- og tjáningafrelsi víðsvegar um heiminn. Kælingaráhrif dómsins séu fyrirsjáanleg; þeir sem búi yfir mikilvægum upplýsingum sem eigi brýnt erindi til almennings muni hugsa sig vandlega um áður en þeir grípi til aðgerða.

IMMI bendir á að Manning hafa verið mjög umhugað um íslenska hagsmuni; hann hafi meðal annars leikið skjölum sem vörðuðu milliríkjadeilu Íslands og Bretlands vegna þess að honum hafi ofboðið diplómatískt einelti tveggja stórvelda gagnvart Íslandi. Manning afpláni því hluta refsingar sinnar fyrir Ísland.

Fréttatilkynningu IMMI má sjá í heild sinni hér að neðan:

Stríðið gegn upplýsingum er háð af miklum þunga. Í dag var bandaríski hermaðurinn Bradley Manning, sem afhjúpaði 750 þúsund bandarísk leyniskjöl, sem vörpuðu meðal annars ljósi á stríðsglæpi bandaríska hersins í Írak og Afganistan, dæmdur í 35 ára fangelsi af bandarískum herdómstóli.

Það veldur okkur hjá IMMI gríðarlegum vonbrigðum að enginn sé látinn sæta ábyrgð fyrir þá stríðsglæpi sem Manning afhjúpaði. Þessi í stað á að skjóta sendiboðann. Dómurinn er sérlega alvarlegur fyrir hinn 25 ára gamla Bradley og fjölskyldu hans, en hann hefur einnig alvarleg áhrif fyrir upplýsinga- og tjáningarfrelsi, hugsanlega um allan heim. Kælingaráhrifin sem dómurinn mun hafa eru fyrirsjáanleg. Þeir sem búa yfir mikilvægum upplýsingum sem eiga brýnt erindi til almennings munu hugsa sig vandlega um áður en þeir grípa til aðgerða.

Af hverju skiptir þetta máli fyrir Ísland? Af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi þeirri að Bradley Manning var mjög umhugað um íslenska hagsmuni. Hann fann skjöl sem vörðuðu milliríkjadeilu Íslands og Bretlands og var misboðið við að sjá viðbrögð sinnar eigin ríkisstjórnar. Í yfirlýsingu Bradley, við réttarhöldin, um þetta efni segir meðal annars:

“I read the cable and quickly concluded that Iceland was essentially being bullied diplomatically by two larger European powers. It appeared to me that Iceland was out viable options and was coming to the US for assistance. Despite the quiet request for assistance, it did not appear that we were going to do anything.”

Hluta af dómi Bradleys, mun hann sitja fyrir að afhjúpa umrædd gögn um Ísland.

Önnur ástæða þess að örlög Bradley Manning skipta okkur Íslendinga sérstöku máli er að samkvæmt IMMI þingsályktuninni sem samþykkt var einróma á Alþingi 16. júní 2010, hefur ríkisstjórn Íslands meðal annars verið falið að undirbúa frumvarp um vernd afhjúpenda. Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra hefur veitt sinn stuðning til þess að stýrihópur sem unnið hefur að IMMI markmiðunum um upplýsinga- og tjáningarfrelsi, haldi vinnu sinni ótrauður áfram.

Við hjá IMMI viljum þakka Bradley fyrir það hugrekki sem hann sýndi með afhjúpun sinni. Brad hefur lýst því yfir að hann ætlaði aldrei að skaða neinn, heldur þvert á móti að láta gott af sér leiða. Bradley afhjúpaði alvarlega stríðsglæpi. Hann hefur veit fjölda fólks um allan heim mikinn innblástur til að berjast fyrir mannréttindum og gegnsæi. Fyrir það mun hann sitja í fangelsi lungann úr ævi sinni. Ef tilgangur laga og réttar er að gæta hagsmuna einstaklinga jafnt sem almannahagsmuna, getur réttarkerfi sem gefur þessa niðurstöðu, ekki þjónað tilgangi sínum. Við Íslendingar höfum stigið fyrsta skrefið til að tryggja 21. aldar upplýsinga- og tjáningarfrelsi og aukin réttindi fyrir blaðamenn og afhjúpendur. Klárum þetta verkefni saman.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert