Vísar „rakalausum málflutningi“ til föðurhúsanna

mbl.is/Hjörtur

„Strætó bs. fær engan styrk frá ríki eða landshlutasamtökum sveitarfélaga vegna þjónustu á landsbyggðinni og hefur ekki með höndum neinn akstur innan landamerkja þessara landshlutasamtaka. Strætó bs. annast hins vegar ýmiskonar þjónustu, einkum við farþega, skv. þjónustusamningi við viðkomandi landshlutasamtök. Fyrir þá þjónustu fær Strætó bs. þóknun samkvæmt samningnum.“

Þetta segir í fréttatilkynningu frá Strætó bs. í tilefni af kvörtun Félags hópferðaleyfishafa til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, og kvörtunar til innanríkisráðuneytisins vegna meintra ólöglegra ríkisstyrkja til fyrirtækisins eins og segir í tilkynningunni sem undirrituð er af Reyni Jónssyni, framkvæmdastjóra Strætó bs. Þar segir ennfremur að þóknun frá landshlutasamtökum nái til tveggja þátta.

„Annars vegar fær Strætó bs. fargjaldatekjur, þar sem farmiði sem keyptur er á þjónustusvæði landshlutasamtaka gildir einnig sem farmiði í leiðakerfi Strætó bs. á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar fær Strætó bs. þóknun fyrir ýmiskonar þjónustu, s.s. ráðgjöf um mótun og þróun leiðakerfis, útboð á akstri í hendur sjálfstæðra akstursaðila, markaðssetningu þjónustunnar sem og aðgengi farþega að samræmdu gjaldskrár- og farmiðasölukerfi, aðgang að rafrænum upplýsingakerfum um ferðir og þjónustu sem og aðgang að þjónustuveri Strætó bs.“

Þá segir að málflutningur Félags hópferðaleyfishafa virðist þannig byggjast á þeim misskilningi að Strætó bs. „hafi með höndum allan akstur þegar staðreyndin sé sú að Strætó bs. hvorki á né rekur einn einasta vagn sem ekur á landsbyggðinni, né stendur á nokkurn hátt straum af þeim kostnaði sem þar fellur til. Strætó bs. vísar því rakalausum málflutningi Félags hópferðaleyfishafa til föðurhúsanna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert