Um 70% íslenskra fanga, sem sátu í fangelsi hér á landi árin 2007, 2009 og 2011, frömdu afbrot sín undir áhrifum vímuefna að eigin sögn. Þetta kemur fram í rannsókn Boga Ragnarssonar doktorsnema í félagsfræði við Háskóla Íslands.
„Hér ber að athuga að árin 2007 og 2011 voru 86% þeirra sem notuðu vímuefni við afbrot sín undir áhrifum fíkniefna. Þar af var tæplega helmingur bæði undir áhrifum áfengis og fíkniefna og rúmur helmingur eingöngu undir áhrifum fíkniefna við afbrotin ef miðað er við svör fanganna,“ segir Bogi.
Hann segir að niðurstöðurnar gefi sterkar vísbendingar um að vímuefni séu einn þeirra þátta sem hafi áhrif á afbrotahneigð. „Miðað við svörin blasir við að 30% voru ekki undir áhrifum fíkniefna. Þetta misræmi, annars vegar 70% sem neyttu vímuefna, og hins vegar 30% sem gerðu það ekki, gefur til kynna að vímuefnin séu áhrifavaldur.“
Í niðurstöðum kemur jafnframt fram að árið 2007 neyttu um 35% íslenskra fanga fíkniefna oftar en einu sinni í mánuði innan veggja fangelsa á Íslandi. Þetta hlutfall mældist 25% árið 2009 og 13% árið 2011.
Margrét Frímannsdóttir fangelsisstjóri á Litla-Hrauni segir að fíkniefnaneysla sé þekkt innan veggja fangelsisins. Erfitt sé að koma í veg fyrir fíkniefnasmygl þegar eftirspurn er til staðar.
„Ég hef skoðað þetta í öðrum fangelsum, bæði í Evrópu og víðar. Það sýnir sig að menn finna alltaf einhverjar leiðir til þess að smygla fíkniefnum inn í fangelsin,“ segir Margrét í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.