Ferðaáætlun 366 farþega breyttist

Boeing 737-800 farþegaþota flugfélagsins Primera Air
Boeing 737-800 farþegaþota flugfélagsins Primera Air

Bilun sem kom upp í Boeing 737-800 flugvél Primera Air í gærkvöldi hefur haft áhrif á ferðaáætlanir 366 manna í dag. Vélin átti að fara með 183 farþega frá Keflavík til Krítar í morgun og sama fjölda til baka um miðjan dag. Vélin er í viðgerð sem stendur og áætlað að hún fari í loftið kl. 20.45.

Farþegarnir á leið til Krítar voru komnir upp í Leifsstöð þegar þeir fengu að vita að seinkun yrði á fluginu. Var þeim boðið upp á morgunhressingu en síðan ákveðið að ekki væri til neins fyrir þá að bíða á flugvellinum enda óljóst hvenær vélin færi í loftið.

Tómas Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða, segir að vélinni hafi verið flogið til Keflavíkur í gær frá Tenerife og hafi þá komið í ljós leki. Ljóst var að fara þyrfti yfir vélina og var því reynt að fá aðra vél í verkefnið í nótt. „En það er bara ekki hægt á þessum árstíma, hvorki að utan né á Íslandi. Það var því ekki annað í boði en að drífa viðgerð í gang.“

Fyrst um sinn var óvíst hvort panta þyrfti varahluti að utan en svo reyndist ekki vera og stendur viðgerð yfir hjá viðhaldsþjónustu Icelandair. „Áætlaður flugtími er núna kl. 20.45 og við vonum að það verði reyndin.“

Útskriftarnemendur strandaglópar

Farþegarnir sem koma áttu frá Krít eru svo gott sem allir útskriftarnemendur úr Menntaskólanum í Reykjavík. Þeir áttu flug frá Krít klukkan 16.45 að grískum tíma, 13.45 að íslenskum tíma. „En það er búið að skipuleggja þetta þannig að krakkarnir verða þarna í nótt og fara snemma í fyrramálið. Áætlaður flugtími er 6.40 að grískum tíma þannig að þau eru komin heim fyrir hádegi á morgun. Nú veit ég að fyrsti skóladagur er á morgun hjá þeim en þetta er bara eins og það gengur,“ segir Tómas.

Hann segir að því hafi verið komið þannig fyrir að krakkarnir eru áfram á sama hóteli. Gestir sem hafi átt bókað hafi verið færðir til auk þess sem Heimsferðir hafi veraherbergi á öðrum hótelum ef ekki tekst að koma öllum fyrir. „En það er vonandi að allt gangi vel upp.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert