Rúmlega fimmtungur Reykvíkinga sem eru nógu gamlir til að vera með ökuréttindi á ekki fólksbifreið. Alls voru 73.668 slíkir bílar skráðir í eigu borgarbúa á síðasta ári.
Því má ætla að rétt tæplega tuttugu þúsund manns hafi ekki átt fólksbíl í fyrra. Þetta er á meðal þeirrar tölfræði sem lesa má út úr árbók Reykjavíkurborgar sem birt hefur verið á vefsíðu borgarinnar. Í henni kennir ýmissa grasa en þar má finna mikið af tölulegum upplýsingum um borgina.
Samkvæmt þeim tölum sem er að finna í árbókinni var hinn dæmigerði Reykvíkingur með rúmar 4,4 milljónir króna í árstekjur árið 2008, síðasta árið sem slíkar tölur eru til um.
Íbúar í póstnúmerinu 103, Háaleitis- og Bústaðahverfi, njóta mestu efnislegu gæðanna af borgarbúum en meðalárstekjur þeirra eru þær hæstu í borginni. Íbúar í því póstnúmeri voru með að meðaltali rúmar 5,6 milljónir króna í tekjur 2008.