Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins hafa sent Illuga Gunnarssyni, menntamálaráðherra, opið bréf með sex spurningum sem hann er beðinn um að svara í ljósi „ummæla ýmissa ráðamanna um Ríkisútvarpið að undanförnu,“ eins og segir í bréfinu.
Þar er ráðherrann meðal annars spurður að því hvort hann telji að ríkisútvarp með því sniði sem það er rekið nú eiga rétt á sér, hvort hann sé þeirrar skoðunar að Ríkisútvarpið gegna mikilvægu menningarlegu hlutverki í samfélaginu sem einkarekinn miðill gæti ekki sinnt og hvort hann sé á því að skera eigi niður opinber fjárframlög til þess, leggja það niður eða einkavæða.
Ennfremur er Illugi spurður að því hvort hann sé sammála „fullyrðingum ýmissa alþingismanna að núverandi starfsmenn á Ríkisútvarpinu séu upp til hópa vinstrisinnaðir og hafi þau markmið með störfum sínum að ófrægja og/eða klekkja á núverandi stjórnvöldum“ og hvort hann telji „að í hugtakinu óhlutdrægni, sem Ríkisútvarpinu beri að gæta, „sé fólgið að þess sé ætíð gætt að öll sjónarmið í sérhverju máli fái jafnan tíma í fréttum.“
Bréfið hefur verið sent til ráðherrans og samrit á alla stærstu fjölmiðla landsins að því er segir í tilkynningu frá samtökunum.