Það er misskilningur að til hafi staðið að senda þeim sem ættu að fá skuldaniðurfellingar ávísun í pósti strax í sumar. Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í viðtali við Kjarnann. Sigmundur Davíð segir að unnið sé að útfærslu niðurfellinganna.
„Ég reyndi að eyða þeim misskilningi í kosningabaráttunni. Það hefur alltaf legið ljóst fyrir að það tæki tíma til að skapa aðstæður þar sem þetta væri framkvæmanlegt. Vinna við það er samkvæmt áætlun,“ segir Sigmundur Davíð í fyrsta tölublaði Kjarnans, nýs vefmiðils sem kemur út í dag.
Aðspurður hvenær verði þá ráðist í skuldaniðurfellingu segir forsætisráðherrann það háð því hvernig aðrir hlutir þróist, en það megi þó ekki dragast óhóflega.
„Við höfum viljað forðast að nefna ákveðnar dagsetningar sem gætu búið til óeðlilega pressu á öðrum vettvangi þar sem unnið er að því að skapa forsendurnar fyrir þessum aðgerðum. Það er hins vegar alveg ljóst að því fyrr sem menn geta eytt þeirri óvissu sem hefur verið ríkjandi í nokkur ár um skuldamál heimilanna, þeim mun betra verður það fyrir samfélagið. Þannig að það liggur á.“
Sigmundur Davíð vill heldur ekki svara því beint í viðtalinu hvenær von sé á því að þjóðaratkvæðagreiðsla eigi sér stað um framhald aðildarviðræðna. Hann segist rólegur yfir nýjustu niðurstöðum skoðanakannanna, sem gefa til kynna að fylgi við ríkisstjórnina dali hratt á kostnað Framsóknarflokksins.
Þetta er fyrsta ítarlega viðtalið við Sigmund Davíð síðan hann tók við stjórnartaumunum. Viðtalið í heild má lesa í PDF útgáfu á vef Kjarnans í dag.