Þingsályktun um ESB ekki bindandi

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins AFP

Á fundi ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar í morg­un lagði Gunn­ar Bragi Sveins­son ut­an­rík­is­ráðherra fram lög­fræðilega álits­gerð vegna ákvörðunar rík­is­stjórn­ar­inn­ar um að gera hlé á aðild­ar­viðræðum við Evr­ópu­sam­bandið og að stöðva frek­ari vinnu samn­inga­nefnd­ar og –hópa.

Álits­gerðin var unn­in í kjöl­far fyr­ir­spurn­ar þriggja nefnd­ar­manna í ut­an­rík­is­mála­nefnd, sem óskuðu eft­ir að skýrð væru “þau stjórn­skipu­legu vald­mörk sem fram­kvæmd­ar­vald­inu eru sett gagn­vart ferli um­sókn­ar um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu” sam­kvæmt álykt­un Alþing­is nr. 1/​137 frá 16. júlí 2009, um aðild­ar­um­sókn að Evr­ópu­sam­band­inu.

Í álits­gerðinni er fjallað um laga­lega þýðingu þings­álykt­ana í þeim skiln­ingi hvort þær geti haft bind­andi áhrif. Niðurstaða henn­ar er sú að þings­álykt­an­ir sem ekki byggj­ast á sér­stakri heim­ild í lög­um eða stjórn­ar­skrá bindi stjórn­völd ekki um­fram það sem af þing­ræðis­venj­unni leiðir, sam­kvæmt til­kynn­ingu frá ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu.

„Í bréfi til ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar sem fylg­ir álits­gerðinni seg­ir ut­an­rík­is­ráðherra að álykt­un sú sem vísað sé til hafi verið samþykkt af öðrum þing­meiri­hluta er nú sit­ur. Nú­ver­andi stjórn­ar­flokk­ar  hafi báðir haft á stefnu­skrá sinni að gera hlé eða hætta þeim viðræðum sem álykt­un­in fjall­ar um og aug­ljóst var fyr­ir kosn­ing­arn­ar að þeir stæðu henni ekki að baki. Að fengnu þessu áliti verði rík­is­stjórn­in því ekki tal­in bund­in af að fylgja þess­ari álykt­un eft­ir. Af sjálfu leiði að sama gildi um heim­ild­ir ráðherra til að víkja frá því skipu­lagi sem vísað var til í nefndaráliti með þings­álykt­un­ar­til­lög­unni.

Að fengnu þessu áliti hef­ur ut­an­rík­is­ráðherra ákveðið að taka til skoðunar að leysa samn­inga­nefnd­ina sem skipuð var til að leiða aðild­ar­viðræður við Evr­ópu­sam­bandið og ein­staka samn­inga­hópa frá störf­um til að þeir sem þar hafa setið geti snúið sér að öðrum verk­efn­um,“ seg­ir í til­kynn­ingu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert