35 grunnskólar í Reykjavík tóku þátt í reglubundinni lesskimun skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar síðastliðið vor. Meginniðurstaða hennar er sú að 63% nemenda í 2. bekk geta lesið sér til gagns, og er það 6 prósentustigum lægra en árið 2012 þegar sambærileg könnun var gerð og það lægsta síðan árið 2005.
Meðalárangur í lesskimuninni er svörun við 32,4 atriðum af 46 mögulegum eða 70%, sem er tveimur prósentustigum lægri en árinu á undan og sá lægsti síðan 2006.
Einungis 59% drengja getur lesið sér til gagns
Nemendahópurinn sem ekki nær 65% árangri í lestri er 37% af nemendahópnum sem tók þátt í skimunni. Um 67% stúlkna sem tóku þátt í skimuninni geta lesið sér til gagns en 59% drengja. Munurinn á milli kynja eykst frá árinu 2012.
Viðhorf nemenda til lesturs voru einnig könnuð með tíu spurningum. Hún leiddi í ljós að nemendum finnst ánægjulegast að byrja á nýrri bók, láta lesa fyrir sig og lesa teiknimyndasögur. Minnsta ánægju hafa nemendur af því að lesa upphátt í skólanum, lesa dagblöð og að geta ekki lokið við að lesa bók. Stúlkur hafa marktækt jákvæðara viðhorf til lesturs en drengir líkt og fyrri kannanir hafa leitt í ljós.
Skóla- og frístundaráð lýsti á fundi sínum í gær yfir áhyggjum af niðurstöðum lesskimunarinnar. Í bókun ráðsins segir:
„Mikilvægt er að fagskrifstofa sviðsins skoði vel með skólunum hvaða orsakir gætu legið hér að baki og hvað er til úrbóta. Nýsamþykkt læsisstefna fyrir leikskólastigið er mikilvægt verkfæri til að auka samfellu á milli skólastiganna og örva alla þætti læsisfærni barna frá unga aldri og hún verður góður stuðningur við leikskóla og grunnskóla á næstu misserum. Þáttur foreldra er stór þegar kemur að læsi barna og mikilvægt að skólarnir kynni bæði niðurstöðurnar fyrir foreldrum sem og haldi áfram á þeirri góðu braut að hvetja foreldra til að setja lestur bóka í öndvegi heima fyrir.
Skóla- og frístundaráð samþykkti jafnframt að vorið 2014 verði allir leikskólar og grunnskólar búnir að kynna sér læsisstefnu leikskóla og lestrarstefnu grunnskóla og móta samstarfsáætlun þar sem áhersla er lögð á samfellu í námi barna varðandi mál og læsi frá upphafi leikskólagöngu og fram á unglingastig,“ segir á vef Reykjavíkurborgar.