Endurskoða samstarfið við Moskvu

Jón Gnarr borgarstjóri skartaði íslenskum upphlut í gleðigöngu hinsegin daga …
Jón Gnarr borgarstjóri skartaði íslenskum upphlut í gleðigöngu hinsegin daga í ár. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tillaga Jóns Gnarr borgarstjóra um endurskoðun á samstarfssamningi Reykjavíkurborgar við Moskvu, höfuðborg Rússlands, var samþykkt í borgarráði í gær. Tilefnið er sú þróun sem átt hefur sér stað í málefnum samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks í Rússlandi.

Moskva er ein af 11 borgum sem teljast til vinaborg Reykjavíkur. 

Samkvæmt tillögu Jóns er borgarlögmanni, mannréttindaskrifstofu og skrifstofu borgarstjóra og borgarritara falið að koma með tillögur að breytingum á samstarfssamningi Reykjavíkur og Moskvu, eða uppsögn á honum, að höfðu samráði við utanríkisráðuneytið og Samtökin ´78.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram sérstaka bókun um að þeir setji sig ekki upp á móti því að skoðaðar verði breytingar á samstarfssamningnum. Hins vegar benda þeir á að íslensk utanríkisþjónustu sé í sendiráðs- og ræðismannssambandi á 270 stöðum í heiminum í yfir 80 löndum.

Ólíklegt til að vekja athygli annars staðar en hér

„Með því að vera í sambandi við önnur ríki á alþjóðavettvangi er íslensk þjóð ekki að leggja blessun sína yfir mannréttindabrot sem vitað er að framin eru í ýmsum þessara landa, þ. á m. í löndum þar sem starfrækt eru íslensk sendiráð,“ segir í bókun sjálfstæðismanna í borginni.

„Fulltrúar utanríkisráðuneytisins hafa nýtt sér stöðu sína til að árétta stuðning Íslands við réttindabaráttu samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks í Rússlandi. Að skella hurðum gerir maður bara einu sinni og ekki er líklegt að það atvik veki athygli annars staðar en hér. Með því getur þó verið lokað á mikilvæg tækifæri til þess að hafa áhrif á ráðamenn annarra þjóða til lengri tíma og gera gagn í þágu mannréttinda.“

Þar sem borgarstjóri lagði þó aðeins til að farið verði yfir málið samþykktu sjálfstæðismenn með þeim orðum að afstaða til samstarfssamningsins í heild sinni, og hugsanlegra breytinga á honum, verði tekin þegar kemur að endanlegri ákvörðun borgarráðs.

Átök í Moskvu þegar umdeild lög gegn áróðri fyrir samkynhneigð …
Átök í Moskvu þegar umdeild lög gegn áróðri fyrir samkynhneigð voru samþykkt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka