Siglfirðingar upplifðu í dag nokkuð sem Norðlendingar hafa allajafna ekki upplifað á undanförnum árum ólíkt löndum þeirra í suðurhluta landsins. Það er að öskumistur hafi lagst lagst yfir byggðir og sveitir. Gefum Sigurði Ægissyni fréttaritara Morgunblaðsins og mbl.is á Siglufirði orðið:
„Dagurinn byrjaði með súld, snemma morguns, svo birti og hlýnaði og við upplifðum einn af bestu dögum sumarsins, 20 gráðu hita, sunnan gjólu og glaðasólskin - og þvílíka blíðu og dásemd! Það er hvergi sól nema á Sigló, sögðu þeir sem komu að austan. Seinnipartinn fór að syrta í lofti og einhver sagði: Nú ætlar dagurinn að enda eins og hann byrjaði, með súld - nema þetta sé sé svona mikið mistur?
Þeir sem skokkuðu í þurru veðri á móti sunnanáttinni sveið ögn í augu og það var eins og fíngerðan sand mætti bryðja milli tanna. Og fyrir kvöldgrillið varð að þurrka grátt og nýfallið rykið af garðhúsgögnum. Því er kenningin hér á fréttasíðunni sú að í dag hafi við Norðlendingar loks fengið smá snert af Eyjafjallagosinu fræga fyrir þremur árum. Eða hvað gæti það annað verið?“