Páll Magnússon útvarpsstjóri segir staðhæfingu um að sjónvarpsheimurinn sé alfarið að færa sig yfir á internetið beinlínis ranga en Arnar Sigurðsson, áhugamaður um dreifingu á sjónvarpsefni, hélt þessu fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu fyrir skemmstu. „Ég þekki raunar enga almannaþjónustusjónvarpsstöð sem lætur dreifingu á internetinu koma í staðinn fyrir línulega dreifingu. Allstaðar er litið á dreifingu á internetinu sem viðbót,“ segir Páll.
Að sögn Páls er tæknin sem Arnar vísar til, DVB-T2, ný af nálinni. Var tekin í gagnið 2010 og er nú notuð í Bretlandi, Svíþjóð og Finnlandi, auk þess sem Bandaríkin, Indland og fleiri ríki eru að taka hana upp. „Hún er nú ekki úreltari en það,“ segir hann. Það er Vodafone sem á og rekur dreifikerfið en samið var um þjónustuna til næstu fimmtán ára að undangengnu útboði fyrr á þessu ári.
Hrannar Pétursson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Vodafone, óttast ekki að hugtakið „sjónvarp“ sé að verða úrelt. „Vissulega kjósa sífellt fleiri að vera sínir eigin sjónvarpsstjórar en líklegast er að framtíðin felist í einhvers konar samspili hefðbundinnar notkunar og gagnvirkrar," segir hann. „Við erum að reka margar tegundir dreifikerfa, en það er af og frá að hefðbundnar sjónvarpsútsendingar séu í andarslitrunum.“
Nánar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.