Grænlendingar juku makrílkvóta sinn í 55 þúsund tonn í vikunni, en í upphafi vertíðar var miðað við 15 þúsund tonn.
Karl Lyberth, sjávarútvegsráðherra í grænlensku landsstjórninni, segir í samtali við grænlenska blaðið Sermitsiaq að hugsanlega verði makrílkvótinn 80 þúsund tonn á næsta ári.
Lyberth segir í samtali í Morgunblaðinu í dag, að Grænlendingar ætli að nota næstu tvö til þrjú ár til að komast að því hversu mikið gengur af makríl og síld í lögsögu þeirra. Að þeim tíma liðnum vilji Grænlendingar fá sæti við samningaborðið þar sem fjallað er um stjórnun veiða á síld og makríl og skiptingu afla.