Þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs vill að vinstriflokkarnir annaðvort myndi kosningabandalög eða bjóði fram sameiginlega fyrir sveitarstjórnakosningarnar sem fram fara næsta vor. Einkum í stærri sveitarfélögum eins og á höfuðborgarsvæðinu.
Haft var eftir Árna Þór Sigurðssyni, þingmanni VG, í Ríkisútvarpinu í dag að hann teldi að þetta gæti styrkt vinstriflokkana og gert þá að raunverulegum valkosti þeirra sem aðhylltust ekki áherslur núverandi stjórnarflokka. Hann sagðist telja að vinstriflokkarnir ættu að sama skapi að samræma málflutning sinn og samstarf á Alþingi.
Flokkarnir ættu að hans mati miklu meira sameiginlegt í grundvallarsýn á uppbyggingu samfélagsins en það sem bæri á milli og þeir hagsmunir ættu að vera ríkjandi en hitt að víkja.