Jón lærði Guðmundsson (1574-1658) hlaut viðurnefni sitt „lærði“ í lifanda lífi. Sem bóndi um fertugt í Stóru-Ávík í Trékyllisvík neitaði hann að verða við skipun sýslumannsins Ara í Ögri um að taka þátt í aðför að skipreika Böskum í Spánverjavígjunum svonefndu haustið 1615. Fyrir vikið var hann ásamt fjölskyldu sinni á flótta og hrakhólum næstu áratugi. Það sem einkennir Jón lærða er að hann var sjálfmenntaður en þó í kallfæri við lærdómsmenn síns tíma, listamaður til hugar og handa sem skóp verk sem lifðu um aldir og nokkur þeirra hafa skilað sér til okkar daga. Nýlega kom út bók í ritstjórn Hjörleifs Guttormssonar um þennan óvenjulega einstakling og nefnist hún Í spor Jóns lærða.
Hjörleifur segist hafa orðið var við Jón lærða snemma á lífsleiðinni, ekki síst vegna rits hans Um Íslands aðskiljanlegar náttúrur, sem Helgi Hallgrímsson gerir góð skil í bókinni. Þegar Hjörleifur vann að árbók Ferðafélags Íslands 2008 um Úthérað og kynnti sér doktorsritgerð Einars G. Péturssonar frá 1998 um Eddurit Jóns lærða, fór hann að rekja spor Jóns þar eystra. Þar er Hjörleifur á heimaslóð, ólst upp á Hallormsstað og var síðan búsettur í röska fjóra áratugi í Neskaupstað. Einar G. leggur að vonum mikið til þessa rits. „Jón lærði kemur austur með útlegðardóm á bakinu veturinn 1631-1632. Sitthvað bendir til að hann hafi dvalið á hjáleigunni Landsenda í Jökulsárhlíð fyrst eftir að hann kom austur á Hérað,“ segir Hjörleifur. „Hann var síðan nokkur ár í Bjarnarey á flótta undan andskotum sínum. Eftir að Brynjólfur Sveinsson varð biskup 1639 dvaldi Jón í sæmilegum friði sem kotbóndi og afkastamikill rithöfundur í Útmannasveit, þ.e. í Gagnstaðahjáleigu og Dalakoti. Síðast en ekki síst er nafn hans tengt Hjaltastað, þar sem Guðmundur sonur hans varð prestur og Jón skreytti kirkjuna þar með eftirminnilegum hætti. Á Hjaltastað voru þau hjón, Jón og Sigríður, jarðsett úti fyrir kirkjudyrum. Árið 2008 var kominn tími til að setja stein á leiði þeirra, en þá voru liðin 350 ár frá andláti Jóns. Af því tilefni varð til Dagur Jóns lærða, vel sótt málþing í félagsheimilinu Hjaltalundi í Útmannasveit. Þar voru flutt erindi um líf hans og störf, og margir sem þar komu fram eru höfundar greina í þessari nýútkomnu bók.
Þá um haustið birtist svo skáldsaga Sjón, Rökkurbýsnir, sem sækir efni í Jón lærða. Með þessu var kominn efniviður, eins konar grind, sem bætt var við stig af stigi og mér fannst geta staðið undir því að birtast í bókarformi. Leitað var til fleiri einstaklinga með sérþekkingu og þannig aukið við efnið, ekki síst tengdu uppruna Jóns á Ströndum og þeim dramatísku árekstrum sem urðu tilefni þess að hann flúði að vestan. Bókmenntafélagið var svo vinsamlegt að taka verk þetta til útgáfu ásamt hljómdiski sem fylgir bókinni. Á diskinum er m.a. að finna brot úr útvarpsleikriti Ásdísar Thoroddsen, Sönn frásaga. Ritverk Jóns gengu lengst af manna á milli í formi fjölda uppskrifta og voru kærkomin fróðleiksfúsri alþýðu og sem frásögur og skemmtiefni á kvöldvökum í bundnu og óbundnu máli. Það fyrsta sem kom út prentað voru þjóðsagnaminni sem Jón Árnason tók upp í safn sitt 1862, sögur eins og af Marbendli og Völu drottningu og Viðfinnu völufegri. Jón lærði getur talist meðal fyrstu þjóðfræðinga okkar. Þeirri grein tengjast sögur hans af jarðbúum, álfum og huldufólki, en álfana kallaði hann oft ljúflinga.“
Meðal þekktra rita Jóns lærða er Sönn frásaga af spanskra manna skipbrotum og slagi og hið magnaða ævikvæði hans Fjölmóður. Í frásögunni kemur skýrt fram andúð hans á aðför yfirvalda gegn Böskum en Jón hafði verið í vinfengi við suma þeirra árin á undan. Honum blöskraði að litið væri á skipbrotsmennina líkt og hóp bjarndýra sem gengið hefði á land og þyrfti að aflífa. Í Fjölmóði, sem er margbrotið og magnað kvæði, fer hann yfir æviferil sinn og hversu afdrifaríkt það reyndist honum að neita að hlýða skipun Ara sýslumanns. „Jón lærði var Strandamaður,“ segir Hjörleifur. „Magnús Rafnsson varpar skýru ljósi á hann í grein sinni og telur hann góðan fulltrúa fyrir alþýðumenningu síns tíma, með áhrif úr kaþólsku sem ekki urðu þurrkuð út í einu vetfangi með siðbreytingunni. Magnús gerir líka grein fyrir nýlegum fornminjarannsóknum Ragnars Edvardssonar um hvalstöð við norðanverðan Steingrímsfjörð.
Tannsmiðurinn og málarinn Jón er ekki síður forvitnilegur en rithöfundurinn og ljóðskáldið. Þóra Kristjánsdóttir listfræðingur varpar ljósi á þann þátt og leiðir að því líkur að útskurður í vörslu Þjóðminjasafns, fjalir frá kirkjunni í Árnesi, séu einmitt handarverk Jóns lærða. Sjálfur hef ég reynt að átta mig á afdrifum kirkjuskreytinga Jóns lærða á Hjaltastað með því að kanna margvíslegar heimildir. Í þessu grúski naut ég m.a. aðstoðar Lilju Árnadóttur og Jóns Torfasonar. Ljóst er að fagurlega skreyttur prédikunarstóll Jóns lærða var í Hjaltastaðakirkju í full 200 ár en var þá fjarlægður og seldur. Það bíður síðari tíma að finna leifar hans, hugsanlega á söfnum erlendis. Hins vegar kom óvænt í ljós Maríumynd í vörslu Þjóðminjasafns, sem örugglega er það líkneski sem selt var frá kirkjunni til safnara 1896.
Hjaltastaðakirkja er friðuð og hefur gengist undir viðgerðir síðasta áratuginn og hlúð hefur verið að kirkjugarðinum umhverfis. Umsjón með þessu höfðu Hjörleifur Stefánsson arkitekt og Guðmundur Rafn Sigurðsson landslagsarkitekt. Í greinum sínum fræða þeir okkur um forsöguna á Hjaltastað, í umhverfi þar sem Jón lærði valdi sér legstað. Í sporum Jóns lærða kennir margra grasa. Einn af þeim sem þar birtist er rithöfundur austan úr Rússlandi, Leonid Korablev að nafni, einlægur aðdáandi Jóns lærða og sem er óþreytandi að fræða þarlenda um arfleifð hans og íslensk þjóðfræði. Árni Bergmann setur þann áhuga í samhengi við viðhorf Rússa fyrr og síðar til Norðurlanda og áhuga þeirra á norrænum menningararfi.
Jón lærði eignaðist þrjú börn með Sigríði sinni, en tvö þeirra misstu þau í hrakningunum vestanlands um það leyti sem Jón var dæmdur í útlegð. Aðeins Guðmundur sonur þeirra lifði og varð stoð og stytta foreldra sinna. Frá séra Guðmundi á Hjaltastað er kominn sá mikli leggur sem Guðmundur Beck rekur í átta ættliði og sem að meginstofni til staðfestist austanlands.
Það er von okkar sem stöndum að þessu riti að það varpi ljósi á einn eftirminnilegasta Íslending á siðbreytingaöld. Sjónarmið hans, réttlætiskennd og viðbrögð við mótlæti eiga erindi við okkur sem nú lifum.“