Menningarnóttin fór vel fram að mestu leyti og frekar var rólegt hjá lögreglu, segir í tilkynningu. Hægt er að segja að þessi Menningarnótt teljist með þeim rólegri frá sjónarhóli lögreglu.
Þrátt fyrir mikinn mannfjölda í miðborginni gekk vel að rýma miðborgina eftir að flugeldasýningu lauk. Lítið var um útköll til lögreglu tengd Menningarnóttinni sjálfri og hefur veðrið sjálfsagt átt sinn þátt í því að flestir fóru eftir að hefðbundinni dagskrá lauk en rigning var af og til þótt ekki hafi verið kalt.
Einnig má þakka góðu forvarnarstarfi lögreglu fyrr um kvöldið en frá kl. 21.00 var áfengi tekið af um 25 ungmennum alls og sex ungmenni voru flutt í athvarf vegna ölvunar. Í öllum slíkum tilfellum þar sem ungmenni er undir lögaldri er haft samband við foreldra eða forráðamann og Barnavernd fær einnig tilkynningu.