Þeir sem tóku íbúðarlán fyrir bankahrunið og urðu fyrir tjóni vegna þess fá það bætt óháð því hvort þeir hafi síðan selt eða endurfjármagnað eignir sínar. Fyrirvarar í kaupsamningum um íbúðarhúsnæði eru því óþarfir. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.
Fram kom í fréttinni að færst hefði í vöxt að seljendur íbúðarhúsnæðis settu fyrirvara í kaupsamninga um hugsanlegar leiðréttingar á íbúðalánum til þess að þeir njóti þeirra en ekki kaupandinn. Forsætisráðherra segir þetta hins vegar ekki nauðsynlegt þó að skiljanlegt sé að fólk vilji hafa varann á.
„En í þessu tilfelli höfum við lagt á það áherslu að sú leiðrétting sem um er að ræða eigi að miðast við að leiðrétta hjá þeim sem urðu fyrir tjóni vegna þessa margumrædda forsendubrests. Þannig að það skiptir ekki máli hvaða samningar hafi verið gerðir í millitíðinni, hvort menn hafi selt eða endurfjármagnað eða gert aðrar breytingar. Þetta miðist við að bæta tjónið sem varð vegna hruns bankanna, sem bein afleiðing af því og þá hjá þeim sem urðu fyrir því tjóni“, sagði Sigmundur.