„Ég held að menn geti ekki leyft sér að sitja bara heima þegar það spáir svona,“ segir Birgir H. Arason sauðfjárbóndi á Gullbrekku í Eyjafirði. Bændur um allt Norðurland eru á tánum vegna illviðrisspár um komandi helgi. Víða er fundað í kvöld og svo gæti farið að göngur hefjist sumstaðar strax á morgun.
Veðurstofa Íslands spáir norðanhríð á föstudag með slyddu eða snjókomu í 150-250 metra hæð yfir sjávarmáli og vindhraða allt að 15-23 m/s. Á laugardagsmorgun er svo von á norðvestan 18-25 m/s á Norður- og Austurlandi og mikilli rigningu neðan við 100-200 metrum yfir sjávarmáli, en annars slyddu eða snjókomu.
Óveðrið í september fyrir ári síðan er mönnum að sjálfsögðu í fersku minni en þá drápust yfir 3.500 kindur í Þingeyjarsýslu og Eyjafirði.
„Manni líst hreinlega ekkert á þetta,“ segir Birgir, sem var í miðjum slætti þegar blaðamaður mbl.is heyrði í honum nú laust fyrir kvöldmat. „Við erum að reyna að klára heyskapinn, á síðustu metrum í seinni slætti og sumir eru enn ekki byrjaðir. Þannig að manni finnst algjörlega fáránlegt í rauninni að hugsa til þess að svona veður sé framundan, og alveg ótímabært.“
Ekki stóð til að smala í Eyjafirðinum fyrr en helgina 7. - 8. september og á Vaðlaheiði ekki fyrr en 14. september. Veðurspáin setur áætlanir bænda því mjög úr skorðum. „Það bjóst náttúrulega enginn við svona ósköpum,“ segir Birgir en bætir við að jákvæða hliðin sé að menn eru nú reynslunni ríkari síðan í fyrra.
Birgir er formaður Félags Sauðfjárbænda við Eyjafjörð og ætlar að heyra í mönnum í sveitinni í kvöld. Og það er víðar sem fundað verður vegna veðurspárinnar, því samkvæmt heimildum mbl.is hafa fjallskilastjórar m.a. verið boðaðir á fund í Skagafirði og Þingeyjarsýslu.
„Við tökum enga sénsa á svona löguðu. Menn eru með svona frekar neikvæðan fiðring núna, horfandi á allar veðurspár og hringjandi hver í annan fram og til baka,“ segir Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi á Grýtubakka í Höfðahverfi og formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.
Hann segir bændur í Höfðahverfi ætla að taka stöðuna eftir veðurspár kvöldsins, enn geti brugðið til beggja vona. „Það er náttúrulega bara þessi eina spá sem kominn er, en spár fara að skýrast betur í kvöld. Ef það stefnir í þetta veður þá reikna ég nú frekar með því að við rjúkum af stað á morgun, margir hverjir.“
Þórarinn segir að þegar sé byrjað að tala við þann mannskap sem farið hefur í göngur síðustu haust þannig að menn verði í startholunum ef þurfa þykir í fyrramálið.
Aðspurður segir Þórarinn allan gang á því hversu vel menn séu undir það búnir að taka féð heim á tún svo snemma. „Sumir eru ekki búnir að heyja, ætluðu sér kannski að ná seinni slætti, þannig að aðstæður manna eru misjafnar en menn komast nú alveg í gegnum það held ég.“