Bauðst til að opna leikskólann á ný

Leikskólinn 101.
Leikskólinn 101. mbl.is/Rósa Braga

Eigandi Leikskólans 101 hefur óskað eftir samstarfi við barnaverndaryfirvöld og Reykjavíkurborg um það að opna leikskólann að nýju nk. fimmtudag. „Þetta er sett fram sem ákall til yfirvalda, Reykjavíkurborgar og barnaverndar, um það að koma með einhver úrræði og einhverjar lausnir fyrir þessa foreldra. Af því að það kom mjög skýrt fram á þessum fundi, að Reykjavíkurborg hefur engin úrræði,“ segir lögmaður eigandans í samtali við mbl.is.

Þetta kom fram á fundi sem skóla- og frístundasvið borgarinnar boðaði með foreldrum til að ræða málefni leikskólans. Líkt og fram hefur komið, þá hefur lögreglan hafið rannsókn á meintu harðræði starfsmanna leikskólans gegn börnum.

Fundurinn hófst kl. 17:30 og stóð hann yfir í um tvær klukkustundir. Rætt var um stöðu rannsóknarinnar, almennt um hvernig eftirliti með leikskólum sé háttað og hvaða möguleg úrræði séu í boði fyrir foreldrana og börnin.

Borgaryfirvöld gagnrýnd fyrir úrræðaleysi

Þyrí Steingrímsdóttir, lögmaður Huldu Lindu Stefánsdóttur, eiganda og leikskólastjóra Leikskólans 101, mætti á fundinn fyrir hönd síns umbjóðanda. Hún gagnrýnir borgaryfirvöld fyrir úrræðaleysi. Ekkert hafi komið frá borgaryfirvöldum til að leysa þann vanda sem foreldrarnir eru í, en sem kunnugt var ákveðið að loka leikskólanum á meðan málið væri til rannsóknar. „Ég vil bjóða upp á einhverja valkosti,“ segir Þyrí.

„Barnaverndaryfirvöld og Reykjavíkurborg hafa úrræði til þess að opna þennan leikskóla með því að setja þarna inn t.d. tilsjón, eftirlit, komið með fræðslu. Ég vil kasta boltanum til þeirra,“ bætir hún við. Aðspurð segist hún hafa fengið lítil viðbrögð frá borgaryfirvöldum, en Þyrí tekur fram að hún hafi ekki látið þau vita af þessu útspili leikskólans fyrir fundinn.

Þótti yfirlýsingin óviðeigandi

Ragnar Þorsteinsson, sviðstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, vildi ekki tjá sig um málið þegar haft var samband við hann í kvöld. Hann segir að von sé á tilkynningu frá borgaryfirvöldum í fyrramálið.

Foreldri sem mbl.is ræddi við í kvöld, segir að þetta hafi verið óviðeigandi og ljóst er að þetta hafi fallið í grýttan jarðveg hjá mörgum. Þ.e. að ekki hafi verið við hæfi að lesin væri upp yfirlýsing frá lögmanni eiganda leikskólans á þessum fundi.

Í síðustu viku greindu borgaryfirvöld Huldu Lindu frá því að rannsókn myndi hefjast á skilyrðum rekstrarleyfis leikskólans. Hulda sat einnig fund með Barnavernd Reykjavíkur þar sem henni var greint frá tilkynningu um meint harðræði gegn barni á leikskólanum og að rannsókn myndi hefjast á starfi leikskólans í ljósi umræddrar tilkynningar.

Þyrí segir að umbjóðandi sinn hafi haft frest til dagsins í dag til að skila inn andmælum og var það gert í ítarlegu bréfi sem var afhent borgaryfirvöldum. Þar kemur m.a. fram að Hulda Linda hafi hug á því að opna leikskólann á nýjan leik á fimmtudag. 

Þyrí ítrekar að þetta sé ákall um úrræði. „Um að Reykjavíkurborg og barnavernd setjist að borðinu með eiganda leikskólans með það í huga að opna að nýju og vinna aftur traust foreldranna og bæta úr því sem fór aflaga,“ segir hún. 

Atvik en ekki glæpur?

Þá segir hún að Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, hefði greint frá því á fundinum, að „miðað við það sem þau hafa í höndunum - sem er þá þessi tilkynning, viðtöl við starfsfólk og þessi myndskeið - að þar væri fram komin atvik sem gerðar væru athugasemdir við en það væri ekki litið svo á að einhver glæpur hefði verið framinn,“ segir Þyrí og bætir við að hún vilji fá fram allar athugasemdir og úrræði strax.

Aðspurð segir Þyrí að hún muni eiga fund með yfirmönnum Barnaverndar Reykjavíkur og skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur. „Ég lít svo á að boltinn sé hjá þeim.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert