Kennarasamband Íslands segir að þrátt fyrir að mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson, hafi talað opinskátt um styttingu náms þá hafi hann ekki rætt við forystufólk KÍ um málið þrátt fyrir að óskað hafi verið eftir því.
„Mikil umræða hefur verið síðustu daga og vikur um möguleika á styttingu náms. Sérstaklega hefur verið rætt um framhaldsskólann í því sambandi þó málið snerti skólakerfið í heild.
Kennarasambandið varar við að breytingar verði notaðar til að spara og rýra gæði náms. Möguleikinn á sveigjanlegum námstíma er til staðar í lögum um grunnskóla og framhaldsskóla frá árinu 2008 og ekkert er um lengd náms í lögum um framhaldsskóla.
Minnt er á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um menntamál er sérstök áhersla lögð á samráð við hagsmunaaðila. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur tjáð sig opinskátt um að hann ætli að stytta nám í framhaldsskólunum í þrjú ár. Hann hefur hins vegar ekki rætt við forystufólk KÍ um málið þrátt fyrir óskir þar um. Kennarasambandið skorar á ráðherra að koma á slíkum fundi hið fyrsta, til að ræða um stefnu og áherslur stjórnvalda í skólamálum,“ segir í yfirlýsingu frá stjórn Kennarasambands Íslands.