Evrópusambandinu hafa ekki borist neinar tilkynningar frá íslenskum stjórnvöldum um viðræðuslit. Peter Stano, talsmaður Stefans Füle, stækkunarstjóra ESB, sagði við blaðamenn í Brussel í dag, að sambandið biði eftir úttekt Íslendinga á framtíð aðildarviðræðna.
Þetta kemur fram á vef Bloomberg.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði í samtali við Morgunblaðiði í dag, að hann væri sammála Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra um að bera ætti slit á aðildarviðræðum við Evrópusambandið undir Alþingi. Allt tal um að á döfinni væri að slíta viðræðum án aðkomu þess væri á misskilningi byggt.
Orð Gunnars Braga í síðustu viku vöktu umtal, en hann sagði að samkvæmt lögfræðiáliti kæmi fram að þingsályktanir, líkt og aðildarumsóknin byggði á, sem ekki studdust við sérstaka heimild í lögum eða stjórnarskrá, væru ekki bindandi fyrir stjórnvöld umfram það sem af þingræðisvenjunni leiddi.
,,Ég hef aldrei mótmælt því að þingið þurfi að taka endanlega ákvörðun. Það sem ég hef hins vegar sagt er að það megi lesa það út úr álitinu að þess þurfi ekki. Ég hef líka sagt að ég muni ekki eiga frumkvæði að því að leggja það til að svo verði gert. Því get ég tekið undir með Bjarna Benediktssyni að það sé eðlilegast að þingið taki þessa ákvörðun,“ segir Gunnar Bragi og bætir við: „Við Bjarni erum algjörlega að tala í takt varðandi þetta mál.“