Þrátt fyrir að ýmsir munir sem tengjast sögu Loftleiða hljóti að vera til, hefur Flugsafnið á Akureyri fengið ótrúlega fáa slíka afhenta.
Úr því rættist nokkuð á laugardag þegar Geirþrúður og Elías, börn Alfreðs Elíassonar, stofnanda Loftleiða, og Jökull Alfreð Árnason, sonur Geirþrúðar, komu þangað færandi hendi.
Þau færðu safninu að gjöf afar vel varðveitt Loftleiðaskilti sem var áður í New York, annaðhvort í söluskrifstofu félagsins í borginni eða í Rockefeller-center, að sögn Gests Einars Jónassonar safnstjóra. Einnig gáfu þau bækur um sögu Alfreðs, veggspjald sem búið var til í tengslum við heimildarmynd um Loftleiðir og DVD-diska um félagið.