Alls höfðu í gær veiðst um 32 þúsund tonn af makríl í grænlenskri lögsögu í sumar. Grænlendingar hafa sett sér 55 þúsund tonna kvóta vegna tilraunaveiða á makríl í ár en þessi kvóti var 15 þúsund tonn í fyrra og þá veiddust um fimm þúsund tonn.
Íslensk stjórnvöld hafa hafnað beiðni um að skip frá Eistlandi, sem er innan ESB, og Rússlandi fái að landa makríl hér á landi. Þá hefur einnig verið hafnað erindi um að skip kínverskra útgerða fái olíu og þjónustu í höfnum hér á landi.
Eistneska skipið Ontika landaði því afla sínum í Færeyjum, en Færeyingar eiga í harðri deilu við ESB vegna síldveiða og hefur sambandið lokað höfnum sínum fyrir síld og makríl frá Færeyjum. Ontika er hins vegar í eigu íslenskra aðila, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.